Viðskipti innlent

Hægir töluvert á hagvexti

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Hagvöxtur á fyrstu þremur fjórðungum ársins er 4,3 prósent en spár gerðu ráð fyrir 5,5 prósent árshagvexti.
Hagvöxtur á fyrstu þremur fjórðungum ársins er 4,3 prósent en spár gerðu ráð fyrir 5,5 prósent árshagvexti. Vísir/rósa
Hagvöxtur á þriðja fjórðungi þessa árs mælist 3,1 prósent og er hann sá minnsti frá því á sama tíma árið 2015. Þetta kemur fram í Hagsjá sem birt er á vegum Hagfræðideildar Landsbankans.

Tölurnar benda til þess að verulega hægi á hagvexti en í spá deildarinnar frá síðasta mánuði var gert ráð fyrir því að hagvöxtur ársins yrði 5,5 prósent. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins sé hagvöxturinn 4,3 prósent og er því lægri en spá gerði ráð fyrir.

Á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi hagvöxtur verið 5,6 prósent, 3,4 prósent á öðrum fjórðungi og nú 3,1 prósent á þriðja fjórðungi. Mynstrið sýni því lækkun.

Um er þó að ræða bráðabirgðatölur en auk þess hefur lokaársfjórðungur alltaf töluverð áhrif á vöxtinn.

Vöxtur þjónustuútflutnings neikvæður og dregur úr vexti einkaneyslu

Samkvæmt sömu úttekt dróst útflutningur saman á milli ára og var vöxturinn á þriðja ársfjórðungi einkum borinn uppi af einkaneyslu og fjármunamyndun. Útflutningur hefur ekki dregist saman á þriðja fjórðungi síðan árið 2014.

Þjónustuútflutningur dróst saman um 0,1 prósent og kemur það á óvart. Um er að ræða fyrsta skipti síðan árið 2012 þar sem samdráttur mælist í þjónustuútflutningi. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur dregist hratt saman en þó má gera ráð fyrir að hann hafi mælst jákvæður á þriðja fjórðungi. Stærstan þátt spilar önnur þjónusta.

Einnig dregur úr vexti einkaneyslu og var hann 6,7 prósent á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 9,3 prósent á öðrum ársfjórðungi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×