Erlent

Hafa selt tíu milljónir leikjatölva

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Nintendo Switch malar gull fyrir Nintendo.
Nintendo Switch malar gull fyrir Nintendo. Nordicphotos/AFP
Tölvuleikjarisinn Nintendo hefur nú selt tíu milljónir eintaka af leikjatölvunni Nintendo Switch. Frá þessu greindi fyrirtækið í gær og lofaði því jafnframt að nægt framboð yrði á tölvum fyrir jólainnkaupin en Switch hefur verið ófáanleg vestanhafs undanfarið vegna eftirspurnar.

„Í stuttu máli þá er sú ákvörðun okkar um að bjóða upp á einstaka og öðruvísi leikjatölvu að virka,“ er vitnað í Reggie Fils-Aimé, forseta bandaríska Nintendo, í tilkynningunni. Sá eiginleiki tölvunnar að bæði er hægt að halda á henni og tengja hana við sjónvarp hefur verið einn stærsti þátturinn í velgengni Switch. Þá hefur framboð vinsælla leikja, sem gagnrýnendur hafa lofað, einnig hjálpað til. Mikil þörf var á velgengninni eftir litla sölu síðustu leikjatölvu Nintendo, Wii U.

Sala á Switch hefur farið fram úr öllum væntingum frá því tölvan var sett í sölu í mars. Engin tölva frá Nintendo hefur selst hraðar, afkomuspár fyrirtækisins hafa sífellt hækkað sem og spár um sölu tölvunnar og þá hefur virði hlutabréfa í Nintendo tvöfaldast frá því í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×