Skoðun

Farandverkafólk á leikskólum

Sæunn Kjartansdóttir skrifar
Fyrir fáeinum dögum var í fréttum ný könnun Gallup þar sem kemur fram að leiðbeinendur á leikskólum séu með lægstu launin og undir mestu álagi í vinnunni. Þetta kemur auðvitað ekki á óvart en hafa forsvarsmenn sveitarfélaga hugsað út í þýðingu og afleiðingar þessa?

Til þess að gerast leiðbeinandi á leikskóla þarf hvorki að uppfylla kröfur um menntun né reynslu. Það þýðir að í störf leiðbeinenda velst alls konar fólk. Í þeirra hópi eru margir hæfir einstaklingar sem búa yfir þekkingu, áhuga á og samkennd með börnum, fólk sem hefur helgað líf sitt umönnun barna. En í störf leiðbeinenda rata líka margir af þeirri einu ástæðu að þeir fá ekki aðra vinnu. Á árum áður fékk fólk í þeim sporum oft tímabundna vinnu í frystihúsum en nú á dögum er fólk hætt að segja: „Ég fer þá bara í fisk.“ Í staðinn heyrist: „Ég fæ að minnsta kosti vinnu á leikskóla.“ Þar vantar alltaf fólk og þó að launin séu smánarleg er lærdómsríkt og áhugavert að vinna með börnum.

Á málinu er þó alvarlegur annmarki: Þetta fyrirkomulag er afleitt fyrir ung börn. Þessi endurteknu og rofnu kynni við nýtt og nýtt fólk eiga sér stað á því viðkvæma aldursskeiði sem börnum er nauðsyn að eiga samfelld tengsl við fáa útvalda og áhugasama því þannig finna þau öryggi og að þau skipti máli. Þess í stað þurfa börn á leikskólum sífellt að kynnast og aðlagast nýju starfsfólki sem eðli málsins samkvæmt hefur takmarkaða löngun og/eða getu til að sinna þeim á fullnægjandi hátt. Slíkt getur verið afar streituvaldandi fyrir ung börn og er til þess fallið að draga úr öryggiskennd þeirra.

Óánægt fólk með vald yfir börnum

Í Gallup fréttinni kom líka fram að engir eru eins óánægðir með laun sín og leiðbeinendur á leikskólum. Þegar bætist við mikið álag og stöðugt áreiti þurfandi barna í þröngu rými getur skapast hættulegt ástand. Hafa forsvarsmenn sveitarfélaga leitt hugann að því hversu mikla áhættu þeir taka með því að setja óánægt fólk í valdastöðu gagnvart ungum börnum? Hér er ekki um að ræða stöku starfsmann sem vinnur undir handleiðslu leikskólakennara heldur er algengt að meira en helmingur starfsmanna sé ófaglærður og hlutfall þeirra fer vaxandi.

Fyrir mörg börn þýðir þetta að þau eru háð fólki sem vill í raun ekki vera með þeim. Fólki sem hefur misjafnlega gott taumhald á óánægju sinni, sem skortir oft þroska til að setja sig í spor barna, er ekki læst á tilfinningar þeirra, kallar óöryggi ungra barna frekju og heldur að hægt sé að aga ung börn með því að hunsa þau þegar þeim líður illa. Í orði kveðnu eiga leikskólar að starfa á faglegum grunni og þess vegna var nám leikskólakennara fært upp á háskólastig. Í verki er ábyrgð á ungum börnum falin fólki sem hefur ekki hugmynd um getu og þarfir þeirra vitsmunalega, tilfinningalega eða félagslega.

Reddast þetta?

Með launastefnu sinni hafa sveitarfélögin neytt leikskólastjóra til að manna stöður leikskólakennara með nánast hverjum sem er. Nú er það ekki lengur á ábyrgð fiskvinnslunnar að sjá til þess að hjól atvinnulífisins snúist nógu hratt heldur leikskólanna. Til að þetta reddist ríghöldum við í þá bábilju að það sé þjóðþrifamál að koma sem allra flestum börnum inn á leikskóla sem allra fyrst og að hver sem er geti sinnt þeim. Þegar skortur á starfsfólki er kominn undir öryggismörk og leikskólastjórar neyðast til að loka deildum skilja allir hversu truflandi það er fyrir foreldra og vinnustaði.

Við eigum töluvert erfiðara með að setja okkur í spor þeirra ungu barna sem dvelja langa daga fjarri foreldrum sínum innan um alltof marga jafnaldra, oft í litlu rými, þar sem misjafnlega hæfir starfsmenn stoppa stutt við vegna þess að þeir vilja vera annars staðar. Við veigrum okkur líka við að hugsa út í afleiðingarnar. Hvað ætli þurfi til?

 

Höfundur er sálgreinir.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×