Erlent

Cameron segir tal Trump um gervifréttir hættulegt

Kjartan Kjartansson skrifar
Cameron er gagnrýninn á tilraunir Trump Bandaríkjaforseta til að grafa undan trúverðugleika fjölmiðla.
Cameron er gagnrýninn á tilraunir Trump Bandaríkjaforseta til að grafa undan trúverðugleika fjölmiðla.
Það er ekki bara vafasamt pólitískt þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti kallar fréttastofur eins og CNN og BBC „gervifréttir“ heldur er það beinlínis hættulegt. Þetta er mat Davids Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.

Cameron hefur haft hægt um sig frá því að hann sagði af sér sem forsætisráðherra eftir Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna í fyrra. Því vekur opinber gagnrýni hans á Bandaríkjaforseta nú sérstaka athygli.

Trump Bandaríkjaforseti hefur brugðist við flestum óhagstæðum fréttum um sig og ríkisstjórn sína með því að saka fjölmiðla um að búa til fréttirnar. „Gervifréttir“ eru oftar en ekki viðkvæði forsetans.

„Auðvitað gera gera fjölmiðlar mistök og það er rétt að leiðrétta þá. Það sem er hins vegar verið að reyna að gera hér gengur hins vegar lengra en það. Þetta er tilraun til þess að draga í efa lögmæti stofnana sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræði okkar,“ sagði Cameron um hátterni Trump á fundi samtakanna Transparency International í gær.

Gervifréttirnar upprunnar í Rússlandi

Vísaði Cameron einnig til tilrauna rússneskra stjórnvalda til þess að hafa áhrif á framgang lýðræðisins í vestrænum ríkjum, að því er kemur fram í frétt Politico.

„Leyfið mér að orða þetta svona. Trump forseti, „gervifréttir“ eru ekki fjölmiðlar sem gagnrýna þig. Það eru rússneskir bottar og tröll sem beina spjótum sínum að lýðræðinu ykkar...dæla út ósönnum sögum dag eftir dag, nótt eftir nótt,“ sagði Cameron.

Þá lofaði forsætisráðherrann fyrrverandi Barack Obama, forvera Trump í embætti Bandaríkjaforseta, sem hafi reynt að beina sjónum evrópskra leiðtoga að tilraunum Rússa til til að hafa áhrif á fyrirtæki, fjölmiðla og stjórnmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×