Skoðun

Framtíðarsýn í loftslagsmálum

Hreinn Óskarsson og Trausti Jóhannsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar grein um loftslagsmál í Fréttablaðið 14.des. sl. sem hún kallar „Í kappi við tímann“. Þar vekur hún athygli á þeirri vá sem yfir vofir í loftslagsmálum og bendir á lausnir. Ber að þakka Þorgerði góða grein, en viljum við taka upp þráðinn þar sem hún skildi við.

Ekki þarf að fjölyrða um þann loftslagsvanda sem yfir vofir og hefur verið fjallað víða um, en hvað er til ráða? Þær lausnir sem nefndar hafa verið til sögunnar eru að draga úr losun þ.e. brennslu olíu og kola í heiminum, t.d. með rafvæðingu bílaflotans. Ljóst er að slíkar aðferðir nægja ekki enda fjölgar fólki í heiminum og orkuþörf eykst ár frá ári. Einnig má benda á að nú þegar er koltvísýringur yfir öllum þekktum mörkum s.l. 800 þúsund ár og því ekki nóg að draga úr losun, það verður að ná tilbaka (binda) þann koltvísýring sem þegar hefur losnað út í andrúmsloftið. Í nýrri yfirlitsgrein helstu sérfræðinga 16 ólíkra stofnana sem fjalla um loftslagsvanda og lausnir, sem birt var á þessu ári kemur fram að nýskógrækt, skógvernd og skógumhirða séu mikilvægustu aðgerðirnar til að sporna við vandanum. 

Þorgerður telur gróðursetningu trjáa mikilvæga, en að áhrif bindingar kolefnis með skógrækt komi fram á löngum tíma og dugi skammt í því tímahraki sem framundan er. Telur Þorgerður að leynivopn Íslendinga í loftslagsmálum sé endurheimt votlendis og sé andhverfa við skógrækt. Þarna blandar Þorgerður saman bindingu og losun. Endurheimt votlendis minnkar vissulega losun úr jarðvegi verulega, en bindur ekki þann koltvísýring sem þegar er búið að losa í andrúmsloftið. Ekki bindur votlendið heldur það kolefni sem landsmenn munu losa á næstu árum og hafa losað á síðustu öld. Mýrlendið heldur áfram að losa gróðurhúsalofttegundir s.s. metan, en þó í mun minna mæli enn nýlega framræst land. Því er endurheimt votlendis góð aðferð, en ekki er rétt að líkja þeirri aðferð við bindingu í gróðri.

Samkvæmt mælingum Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá binda skógar hér á landi kolefni bæði hraðar og í meira magni en áður var talið. Í Brynhildarskýrslunni sem kom út á síðasta ári eru skógrækt og landgræðsla taldar hagkvæmustu leiðir til að binda kolefni. Asparskógar sem eru hraðvaxnastir og gróðursettir voru á þessu ári verða komnir í hámarksbindingu fyrir árið 2030, sem er viðmiðunar ár Parísar samkomulagsins. Þá verða þeir farnir að binda allt að 25 t CO2/ha/ár. Aðrar skógargerðir eru almennt komnar í fullan vöxt og hámarksbindingu upp úr 20 ára aldri og viðhalda þeirri bindingu um áratugi. Kolefni binst ekki einungis í greinum, stofnum og rótum trjánna. Binding í jarðvegi og lífrænu efni á skógarbotninum er einnig umtalsverð og hefst strax á fyrstu árum eftir gróðursetningu. Meðalbinding í skógum gróðursettum eftir 1990 og jarðvegi sem þeir vaxa í er í dag mæld vera um 10 tonn CO2/ha/ár. Binding allra ræktaðra skóga, líka þeirra sem gróðursettir voru fyrir 1990, er í dag tæp 300 þúsund tonn CO2 á ári. Þó þekja þessir skógar aðeins 0,45% landsins.

Skógrækt bindur ekki aðeins kolefni. Skógrækt skapar fjölmörg störf til framtíðar í dreifðum byggðum landsins. Aðkoma bænda um allt land að skógrækt jókst verulega í lok síðustu aldar og hefur verið að aukast jafnt og þétt síðan. Fyrir efnahagshrunið árið 2008 voru gróðursettar 6 milljónir plantna á ári. Í dag eru þær rúmlega 3. milljónir. Innviðir eru enn til staðar til að bæta verulega í t.d. skógarbændur, gróðrastöðvar, fagleg ráðgjöf, rannsóknir ofl um allt land. Nú þegar hafa verið gerðir samningar við 700 landeigendur sem ná yfir 55 þúsund ha lands. Einnig hafa sauðfjárbændur nýlega lýst yfir vilja sínum um að kolefnisjafna búgreinina og verður það ekki gert nema með þátttöku í skógræktarverkefnum. Mikilvægt er að staðið sé við þá samninga sem nú þegar hafa verið gerðir við bændur um skógrækt á bújörðum og aukið sé við fjárveitingar til nýgróðursetninga. Uppbygging innviða, sjálfbærni, atvinnusköpun til að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni hafa oft verið í umræðunni. Skógrækt er veigamikil stoð í þessari vegferð og vegur þungt í að ná þessum víðtæku markmiðum og er lykillinn að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Kolefni sem bundið er í nytjaskógi getur auk þess bundið kolefnið mun lengur en sem nemur ævilengd trjánna í skóginum. Trjáviður sem nýttur er til húsbygginga losar ekki kolefni, heldur bindur kolefnið eins lengi og húsbyggingin stendur. Til samanburðar losnar við framleiðslu eins tonns af steinsteypu 900 kg af CO2. Skipta má jarðefnaeldsneyti út fyrir viðarhráefni, t.d. getur timburkurl komið í stað kola við framleiðslu kísilmálms og lífeldneyti á ökutæki má framleiða úr viðarafurðum.

Hvatning til þingmanna

Nú er lag. Við verðum að binda kolefni í skógum og jarðvegi og byggja upp viðarauðlind í landinu! Þorgerður nefnir 230 milljarða króna sekt sem vofi yfir árið 2030 standi Íslendingar ekki við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu. Ef framlög til skógræktar verða aukin markvisst á næstu árum má auðveldlega fjórfalda skógrækt í landinu fyrir brot af þessum 230 milljörðum. Slík aukning mun gera Íslendinga sjálfbæra með viðarafurðir innan hálfrar aldar, auk þess að binda stóran hluta þess kolefnis sem losaður er út í andrúmsloftið.

Spár sýna að með fjórföldun skógræktar má vænta þess að binding árið 2030 verði árlega tæplega 600 þús t CO2/ár og mun stóraukast á næstu áratugum eða allt að 1,4 milljónir t CO2/ár árið 2060. Ef standa á við háleit markmið um kolefnisjöfnun Íslands þarf að vinna að öllum þáttum í einu, þ.e. samdrætti á losun, endurheimt votlendis, endurheimt birkiskóga og ræktun nytjaskóga. Staðreyndin er sú að Ísland er eitt þeirra landa sem hafa hvað mest tækifæri til þess að auka sína bindingu. Skógræktarskilyrði eru góð, næg þekking og vinnuafl er til staðar, landrými og áhugi. Því er ekkert annað að gera enn að hefjast handa!




Skoðun

Sjá meira


×