Erlent

Verkamenn mótmæltu fyrir utan sendiherrabústað Geirs í Washington

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mótmælendur vörpuðu mynd á sendiherrabústaðinn.
Mótmælendur vörpuðu mynd á sendiherrabústaðinn. Mynd/Teamsters
Verkamenn sem starfa fyrir Minnesota-háskóla í Bandaríkjunum mótmæltu fyrir utan sendiherrabústað Íslands í Washington á fimmtudaginn. Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, ræddi við mótmælendurna sem voru að mótmæla hvernig háskólinn kemur fram við starfsmenn.

Greint er frá mótmælunum á heimasíðu Verkalýðsfélags vörubílstjóra í Bandaríkjunum sem skipulagði mótmælin. Hefur það í gegnum tíðina hefur verið eitt öflugasta verkalýðsfélagið þar í landi.

Þar segir að ástæða mótmælanna hafi verið sú að verkalýðsfélagið hafi, ásamt öðrum verkalýðsfélögum, reynt að undanförnu að semja við háskólann um bætt kjör til félagsmanna sinna

Telja verkalýðsfélögin að háskólinn sé ekki að greiða sumum félagsmönnum sínum laun sem nægi til grunnframfærslu.

Geir H. Haarde er sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.vísir/vilhelm
Á vefsíðunni segir að ákveðið hafi verið að mótmæla fyrir utan sendiherrabústað Geirs af þeirri ástæðu að hann útskrifaðist frá Minnesota-háskóla á sínum tíma. Þá hélt Geir einnig boð fyrir fyrrverandi nemendur háskólans sem búsettir eru í Washington á sama tíma og mótmælin fóru fram.

„Enginn atvinnuveitandi á Íslandi kæmist upp með að koma fram við lægst launuðustu starfsmenn sína líkt og Minnesota-háskóli gerir,“ sagði Curt Swenson, varaforseti svæðisfélags Verkalýðsfélags vörubílstjóra.

Geir, sem verið hefur sendiherra Íslands í Bandaríkjunum frá árinu 2015, ræddi við mótmælendur, þar á meðal Sara Parcells sem starfað hefur fyrir háskólann í sextán ár.

„Ég sagði sendiherranum að ég væri einstæð móðir með tvö börn. Ég sagði hr. Haarde að launin mín hefðu ekki haldið í við grunnframfærsluviðmið. Jafn vel þó ég hafi starfað fyrir skólann í sextán ár borgar hann mér ekki nógu há laun til þess að ég hafi efni á að gefa börnunum mínum jólagjafir,“ sagði Parcells.

Segir hún að Geir hafi sagt sér að honum þætti þetta leitt en að hann gæti ekki sagt af eða á hvort hann myndi ræða við forsvarsmenn Minnesota-háskóla.

Fleiri mótmælendur ræddu við Geir en á vefsíðu verkalýðsfélagsins kemur einnig fram að Geir hafi sagt þeim að hann hefði enga ástæðu til þess að blanda sér í deilur verkalýðsfélaganna og háskólans.

Hér að neðan má sjá myndband frá mótmælunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×