Innlent

Formaður Samfylkingar vill vita hvað hinir ríkustu eiga

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, krefst svara.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, krefst svara. vísir/anton brink
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, leitast við að glöggva sig betur á eignum og tekjum þeirra sem mest áttu árið 2016.

Logi hefur lagt fram fyrirspurn um eignir og tekjur landsmanna sem var beint til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Kjarninn sagði fyrstur miðla frá þessu en í fréttinni segir auk þess að fyrirspurnin sé sambærileg þeirri sem Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, lagði fram í árslok 2014.

Fyrirspurn Loga er skipt upp í fjóra liði. Í þeim fyrsta er spurt hvert eigið fé hafi verið hjá þeim 5% landsmanna sem mest áttu árið 2016. Hið sama vildi hann fá að vita hjá 1% og 0,1% landsmanna sem mest höfðu það sama ár. Logi vill vita hvert hlutfall eigin fjár þeirra er af eigin fé allra landsmanna árið 2016 og biður hann um tölur fyrir árin 1997-2015 til samanburðar.

Í öðrum lið spyr Logi hverjar hafi verið heildareignir þeirra 5%, 1% og 0,1% landsmanna sem mest áttu árið 2016 og hvert hafi verið hlutfall heildareigna þeirra af heildareignum allra landsmanna árið 2016 og spyr hann jafnframt um sambærilegar tölur fyrir árin 1997-2015.

Í þriðja lið spyr Logi hverjar hafi verið tekjurnar hjá tekjuhæstu 5%, 1% og 0,1% landsmanna árið 2016, með og án fjármagnstekna og hvert hafi verið hlutfall tekna þeirra af tekjum allra landsmanna árið 2016 og spyr hann auk þess út í sambærilegar tölur fyrir árin 1997-2015.

Í fjórða og síðasta liðnum spyr Logi hvað tekjuhæstu 10%, 5%, 1% og 0,1% landsmanna áttu árið 2016 stóran hluta af eigin fé landsmanna og heildareignum landsmanna árið 2016 og biður hann um tölur fyrir árin 1997-2015 til samanburðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×