Skoðun

Kaldar jólakveðjur frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins

Elín Oddný Sigurðardóttir skrifar
Við afgreiðslu á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 lögðu Sjálfstæðismenn fram tillögu þess efnis að lækka fjárhagsaðstoð borgarinnar. Í stað þess að hækka hana upp í tæpar 189 þúsund krónur á mánuði vildu þeir að hún yrði lækkuð til „samræmis við meðalupphæð fjárhagsaðstoðar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu“. Slík samræming myndi fela í sér lækkun fjárhagsaðstoðar í um 160 þúsund krónur á mánuði eða lækkun um tæpar þrjátíu þúsund krónur á mánuði. Tillagan var vitaskuld felld, enda myndi núverandi meirihluti aldrei samþykkja að vega að þeim sem síst skyldi í samfélaginu og standa einna verst. Með þessum tillöguflutningi opinbera borgarfulltrúarnir þá skoðun sína að þeir sem minnst eða ekkert eiga geti tekið á sig miklar skerðingar.

Það er mín einlæga skoðun að við eigum að mæta fólki í vanda þar sem það er statt með virðingu að leiðarjósi. Það er hlutverk sveitarfélaga að jafna kjör og sjá til þess að enginn líði skort og að hverjum og einum sé mætt á sínum forsendum. Þannig stuðlum við best að þátttöku allra í samfélaginu og sköpum þannig öfluga og lifandi borg.

Ég vil hvetja borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til að kynna sér það öfluga starf sem unnið er með notendum fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. Vinnan með notendum miðar að því að virkja alla til þátttöku í samfélaginu á nýjan leik. Það er hreinlega skammarlegt að vega að þeim er síst skyldi, með tillögu sem þessari, nógu lág er nú fjárhagsaðstoðin samt. Sem betur fer tilheyri ég þeim meirihluta sem er ósammála Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn um þetta og ævinlega þegar þeir hyggjast skerða kjör þeirra sem verst standa mun ég leggjast gegn slíkum tillögum enda eru þær til skammar í velferðarsamfélagi.

Höfundur er formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×