Innlent

Tveir handteknir vegna þjófnaðar í Grafarvogi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þjófnaður átti sér stað í Grafarvogi.
Þjófnaður átti sér stað í Grafarvogi. VÍSIR/VILHELM
Tveir einstaklingar voru handteknir um klukkan 23 í gærkvöldi vegna gruns um þjófnað úr verslun í Grafarvogi. Að sögn lögreglu gista þeir nú í fangageymslum vegna rannsóknar málsins en ekki tókst að yfirheyra þá í nótt sökum ástands. Í skeyti lögreglunnar segir ekkert til um hvort þeir hafi verið staðnir að verki eða hvort á þeim hafi fundist ætlað þýfi.

Einstaklingur, sem lögreglan telur vera fíkniefnasala, var jafnframt handtekinn á Laugavegi upp úr miðnætti. Hann hefur að sama skapi eytt nóttinni í fangaklefa en lögreglan segir hann einnig grunaðan um að hafa ekið ökutæki undir áhrifum fíkniefna. Ekki er hægt að greina frá magni eða tegund hinna meintu fíkniefna að svo stöddu.

Þá var annar einstaklingur stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Hann var fluttur í fangageymslu þar sem ekki var hægt að yfirheyra einstaklinginn vegna ástands.

„Leitað var aðstoðar lögreglu í öllum hverfum í nótt í „minniháttar verkefnum“ en nóttin var að öllu jafna mjög róleg hjá lögreglu. 22 verkefni komu á borð lögreglu í nótt 23:00-07:00,“ segir að lokum í skeyti lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×