Innlent

Alexander og Emilía vinsælustu nöfn nýfæddra barna

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Alexander og Emilía voru vinsælustu eiginnöfnin í fyrra.
Alexander og Emilía voru vinsælustu eiginnöfnin í fyrra. vísir/getty
Alexander er vinsælasta eiginnafn nýfæddra drengja á Íslandi og Emilía vinsælasta stúlkunafnið árið 2016. Hagstofa Íslands birti upplýsingarnar sem fengnar eru frá 1. janúar 2017 úr þjóðskrá.

Á eftir Alexander komu eiginnöfnin Aron og Mikael en Emma og Elísabet á eftir Emilíu. Þór var langvinsælast sem annað eiginnafn drengja og þar á eftir Máni og Hrafn. María var algengasta annað eiginnafn nýfæddra stúlkna og þar á eftir Ósk og Rós.



Í ársbyrjun 2017 voru tíu algengustu einnöfnin og fyrstu eiginnöfnin þau sömu og árið 2012. Jón var algengasta karlmannsnafnið, þá Sigurður og Guðmundur. Guðrún er algengasta kvenmannsnafnið, þá Anna og Kristín. Um 62 prósent landsmanna bera fleiri en eitt nafn. Algengustu tvínefni karla voru Jón Þór, Gunnar Þór og Jón Ingi. Þetta voru einnig algengustu tvínefnin fimm árum áður. Algengustu tvínefni kvenna voru Anna María, Anna Margrét og Anna Kristín.

Þeim fækkar sem bera nöfnin Guðrún, Kristín, Sigurður, Gunnar og Ólafur

Um tvö hundruð algengustu nöfnin á Íslandi eru eiginnöfn um 80 prósent landsmanna. Sömu tuttugu nöfnin hafa verið algengust á Íslandi síðastliðin hundrað ár. Hinsvegar má sjá að færri börnum sem fæddust á síðustu tíu árum eru gefin nöfnin Guðrún, Kristín, Sigurður, Gunnar og Ólafur. Sum nöfn hafa notið mikilla vinsælda árum saman, eins og Kristján, Anna, Katrín og Elísabet. Þetta mynstur hefur hins vegar breyst nokkuð og eru nöfnin Emma, Sara, Emilía, Alexander, Aron, Viktor og Mikael vinsæl hjá yngri börnum en eru sjaldgæf í eldri aldurshópum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×