Erlent

Mannskætt lestarslys í Washington-ríki

Kjartan Kjartansson skrifar
Slysið er sagt hafa átt sér stað nærri borginni DuPont í Washington-ríki.
Slysið er sagt hafa átt sér stað nærri borginni DuPont í Washington-ríki. Vísir/EPA
Talið er að nokkrir hafi farist þegar tveir lestarvagnar steyptust af spori sínu og niður á hraðbraut í Washington-ríki í Bandaríkjunum í dag. Lögregla segir að nokkrir bílar hafi orðið fyrir lestarvögnunum og að fólk sé enn fast inni í vögnunum.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC varð slysið klukkan hálf átta að morgni að staðartíma, um 15:30 að íslenskum tíma. Lestin ferðaðist á milli Portland og Seattle og er hún sögð hafa verið á 130 kílómetra hraða á klukkustund. Að minnsta kosti 75 manns hafi verið um borð.

Talsmaður sýslumanns á svæðinu staðfestir að „nokkrir farþegar“ hafi farist en nákvæmur fjöldi látinna liggur ekki fyrir að svo stöddu. Engir ökumannanna hafi látið lífið, að því er segir í frétt Reuters.

Fréttastöðvar á svæðinu greina frá því að þetta hafi verið jómfrúarferð lestarinnar á nýjum háhraðalestarteinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×