Innlent

Euro Market viðriðið glæpahringinn

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Karl Steinar Valsson og Grímur Grímsson báru saman bækur sínar áður en blaðamannafundurinn hófst í gær.
Karl Steinar Valsson og Grímur Grímsson báru saman bækur sínar áður en blaðamannafundurinn hófst í gær. vísir/ernir

Talið er að verslunarfyrirtækið Market ehf., sem rekur pólskar smávöruverslanir undir nafninu Euro Market í Hamraborg 9, Stakkholti 2b og Smiðjuvegi 2, tengist umfangsmiklu máli alþjóðlegs glæpahrings sem teygir anga sína til Íslands, Póllands og Hollands og greint var frá á blaðamannafundi í gær. Farið var í húsleitir í verslunum fyrirtækisins og eignir haldlagðar. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Líkt og fram kom á blaðamannafundi lögreglu í gær er málið gríðarlega umfangsmikið; snýst um innflutning og sölu á fíkniefnum, en einnig um fjársvik og peningaþvætti. Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol, sagði í gær að þær eignir og reiðufé sem lagt var hald á í aðgerðunum hér á Íslandi séu samtals að virði um 200 milljónir íslenskra króna. Þá segir hann í samtali við blaðið að götuverðmæti eiturlyfjanna sem um ræðir slagi hátt í hálfan milljarð.

Eigendur Market ehf. eru Arkadiusz Niescier og Arkadiusz Maciej Latkowski.

Alls komu um 90 starfsmenn lögreglunnar og tollayfirvalda að aðgerðum hér á landi en farið var í samhæfðar aðgerðir á Íslandi, í Póllandi og Hollandi þann 12. desember síðastliðinn klukkan sex um morguninn. Fimm Pólverjar voru handteknir hér á landi, en þeir hafa búið á Íslandi um hríð.

Karl Steinar sagði í samtali við blaðið málið allt saman skýrasta dæmið um fjölþætta brotastarfsemi sem Íslendingar hafi staðið frammi fyrir.

Samkvæmt nýjasta ársreikningi Market ehf. jókst velta félagsins umtalsvert á milli ára, en hún var tæplega 250 milljónir króna árið 2015 en tæplega hálfur milljarður árið 2016. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.