Handbolti

Halldór: Við erum með frábært lið

Einar Sigurvinsson skrifar
Halldór Jóhann var ekki alltaf hoppandi kátur á hliðarlínunni í kvöld.
Halldór Jóhann var ekki alltaf hoppandi kátur á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Anton
„Dramatískt, gott sjónvarp, frábær handbolti,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari FH , en hann var að vonum sáttur eftir sigur sinna manna á Haukum kvöld.

FH-ingar sýndu gríðarlegan karakter eftir að hafa lent sex mörkum undir á 38. mínútu. Þeir skoruðu næstu sex mörk og jöfnuðu leikinn á aðeins fjórum mínútum.

„Ég var ekki alveg rólegur þegar staðan var 22-16, en strákarnir sýndu hrikalegt hjarta, vinnusemi og fagmennsku. Húsið kom með okkur, maður sá glampann í augunum á stráknum sem maður þekkir og við unnum okkur hægt og bítandi inn í leikinn“.

Halldór á eftir að skoða betur hvað olli því að þeir misstu leikinn frá sér í upphafi síðari hálfleiksins en telur þó að hausinn mönnum hafi haft þar stór áhrif.

„Við vorum klaufar varnarlega. Við vorum að fá á okkur mikið af brottvísunum, það var mikið líf í okkur og mikill kraftur þegar leið á seinni hálfleikinn. Menn vildu vera „all-in“ og fóru kannski aðeins framúr sér og lentu í því að fá tvær mínútur sem voru fyllilega réttar. Maður þarf bara að kíkja á þetta í rólegheitum.“

„Ég er fyrst og fremst er ég bara hrikalega ánægður með mína stráka, mitt lið og alla í kringum þetta að ná þessum sigri í dag. Við erum með frábært lið. Það er ekkert auðvelt að lenda í svona umhverfi eins og í seinni hálfleik og að koma svona sterkir til baka,“ sagði Halldór, en hann og hans menn geta farið sáttir inn í jólafríið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×