Erlent

Abe tilkynninir hvenær Akihito muni stíga af keisarastóli

Atli Ísleifsson skrifar
Akihito tók við keisaraembættinu af föður sínum, Hirohito, árið 1989.
Akihito tók við keisaraembættinu af föður sínum, Hirohito, árið 1989. Vísir/AFP
Akihito Japanskeistari mun afsala sér völdum þann 30. apríl 2019. Frá þessu greindi Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, í morgun.

Hinn 57 ára krónprins landsins, Naruhito, mun taka við krúnunni daginn eftir, eða 1. maí 2019. Þetta er í fyrsta sinn sem Japanskeistari afsalar sér krúnunni í nærri tvö hundruð ár.

„Ríkisstjórnin hyggst gera allt sem í sínu valdi stendur til að tryggja að japanska þjóðin geti fagnað valdaskiptunum,“ segir Abe.

Hinn 83 ára Akihito nýtur mikillar lýðhylli í Japan. Hann óskaði eftir því að afsala sér völdum á síðasta ári og vísaði þar til aldurs og veikinda sinna. Keisarinn hefur glímt við blöðruhálskrabbamein og gengist undir hjartaaðgerð.

Japanska þingið staðfesti í sumar lög sem gerir keisaranum kleift að afsala sér völdum. Kváðu lögin á um að keisarinn yrði að afsala sér völdum innan þriggja ára og að þau ættu ekki við um framtíðarkeisara.

Japan er eitt elsta konungsríki heims, en einungis karlmenn geta gegnt keisaraembættinu í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×