Bílar

Kia Stinger tilnefndur sem Bíll ársins í Evrópu

Finnur Thorlacius skrifar
Kia Stinger má fá með 370 hestafla 3,3 lítra bensínvél með tveimur forþjöppum.
Kia Stinger má fá með 370 hestafla 3,3 lítra bensínvél með tveimur forþjöppum.

Nýr Kia Stinger hefur verið tilnefndur sem Bíll ársins í Evrópu 2018. Stinger er tilnefndur af evrópskum bílablaðamönnum en alls eru sjö bílar tilnefndir í ár. Stinger hefur fengið mikið lof hjá evrópskum bílablaðamönnum fyrir fallega hönnun og afar góða og sportlega aksturseiginleika. Stinger kom á markað í Evrópu fyrir stuttu og hefur þegar fengið þessa virtu viðurkenningu.

Kia Stinger er mjög aflmikill og hraðskreiðasti bíll sem Kia hefur nokkru sinni framleitt. Í GT útfærslunni er 3,3 lítra bensínvél með tvöfaldri forþjöppu sem skilar 370 hestöflum og togið er 510 Nm. Kia Stinger GT er aðeins 4,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraði bílsins er 269 km/klst. Einnig er í boði 2,2 lítra dísilvél sem skilar 200 hestöflum.

,,Kia Stinger er ólíkur öðrum Kia bílum sem við höfum framleitt. Hann er með evrópsk gen bæði í hönnun og aksturseiginleikum. Stinger er hreinræktaður Gran Turismo bíll og sportlegir aksturseiginleikar hans skína í gegn. Það er mikill heiður og ánægja fyrir okkur að hljóta þessa tilnefningu til stærstu verðlauna í evrópskum bílaiðnaði.

Það er einnig sérlega ánægjulegt að sjá sameiginlega vinnu hönnuða og verkfræðinga Kia fá svo mikið lof frá evrópskum bílablaðamönnum. Við teljum að Stinger muni einnig verða vinsæll meðal evrópskra ökumanna" segir Artur Martins aðstoðarforstjóri markaðsmála hjá Kia Motors Europe.

Stinger var hannaður af Peter Schreyer, yfirhönnuði Kia sem er einnig einn af forstjórum fyrirtækisins, og Gregory Guillaume, sem er einn af yfirhönnuðum hjá Kia Motors Europe. Peter Schreyer er einn virtasti bílahönnuður heims og er maðurinn á bak við frábæran árangur Kia á hönnunarsviðinu og fjölda hönnunarverðlauna Kia bíla undanfarin ár.

Albert Biermann, sem sá um aksturseiginleikahluta bílsins, kom til Kia frá BMW árið 2014 eftir 30 ár í starfi hjá BMW. Kia Stinger var prófaður á Nürburgring hringnum þar sem hann stóð sig með glæsibrag sem og á vegum um heim allan. Stinger er annar bíllinn í sögu Kia sem er tilnefndur sem Bíll ársins í Evrópu en Kia cee'd var þess heiðurs aðnjótandi árið 2008.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.