Erlent

Jólamarkaður í Potsdam rýmdur vegna sprengjuótta

Þórdís Valsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var við jólamarkaðinn í gær.
Mikill viðbúnaður var við jólamarkaðinn í gær. Vísir/getty
Jólamarkaður í miðborg þýsku borgarinnar Potsdam var rýmdur síðdegis í gær eftir að yfirvöld fundu grunsamlegan böggul sem lögreglan óttaðist að væri heimagerð sprengja. Markaðurinn og verslanir í kring eru enn lokaðar og málið er í rannsókn.

Pakkinn grunsamlegi hafði verið sendur í apótek sem er nálægt markaðnum og starfsmaður apóteksins hringdi á lögregluna eftir að hafa opnað pakkann og séð grunsamlega víra.

Pakkinn var gegnumlýstur af lögreglunni og við það kom í ljós að hann innihélt nagla í þúsundatali, víra og rafhlöður. Hins vegar fannst ekki kveikjuþráður í pakkanum og er því ólíklegt að sprengjan hefði getað sprungið.

Lögreglan aftengdi hina ætluðu sprengju um þremur klukkustundum eftir að hún fannst. Yfirvöld í Potsdam leita nú á svæðinu í kringum jólamarkaðinn til að ganga úr skugga um að ekki sé að finna fleiri grunsamlega pakka þar.

Mikill viðbúnaður er í Þýskalandi vegna ótta um hryðjuverkaárásir. Í desember á síðasta ári létust tólf manns í hryðjuverkaárás á jólamarkaði í Berlín þegar maður ók vörubíl inn í þvögu fólks á markaðnum. ISIS hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamska ríkið lýstu yfir ábyrgð á árásinni.

Gríðarlega margir jólamarkaðir eru um allt Þýskaland og er aukið eftirlit lögreglu á mörkuðunum og hafa yfirvöld sett upp hindranir utan um suma markaði til þess að verjast bílum.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×