Erlent

Kjarnorkuviðvörunarsírenur ómuðu í fyrsta skipti frá kalda stríðinu

Kjartan Kjartansson og Þórdís Valsdóttir skrifa
Kjarnorkuviðvörunarsírenurnar ómuðu í fyrsta skipti í tæplega þrjátíu ár í gær.
Kjarnorkuviðvörunarsírenurnar ómuðu í fyrsta skipti í tæplega þrjátíu ár í gær. Vísir/ap
Yfirvöld á Havaí prófuðu sírenur sem vara við yfirvofandi kjarnorkuárás, í fyrsta skipti frá því að kalda stríðinu lauk, í gær. Ástæðan fyrir prófuninni er vaxandi spenna á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu vegna kjarnorkuáætlunar síðarnefnda ríkisins.

Washington Post segir að sírenurnar hafi síðast verið notaða á 9. áratugnum. Nú sé ætlunin hins vegar að prófa þær á fyrsta virka degi hvers mánaðar í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sírenunum er ætla að gefa íbúum fimmtán mínútna fyrirvara fyrir kjarnorkuárás svo að þeir geti leitað skjóls og fundið ástvini sína. Fimmtán mínútur eru sá tími sem sérfræðingar telja að það tæki kjarnorkusprengju sem skotið væri frá Norður-Kóreu að ná til Havaí.

Kurt Leong, slökkviliðsstjóri á eyjunni Kauai segir í viðtali við Washington Post að það hafi ekki verið næg fræðsla um þær leiðir sem eyjaskeggjarnir geti varist geislavirkni. Hann segir að prófanir á sírenunum geri það að verkum að fólk undirbúi sig betur fyrir mögulega árás.

Sírenuvæl sem vara við fellibylum, flóðbylgjum og öðrum náttúruhamförum eru regluleg á Havaí-eyjum en það veldur íbúum eyjanna áhyggjum að búið sé að endurvekja kjarnorkuviðvörunarsírenurnar. Almannavarnir á Havaí segja að líkurnar á kjarnorkuárás á Havaí séu afar litlar og áætlar að 90 prósent af íbúum Havaí-ríkis myndu lifa árásina af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×