Erlent

Lögregla telur víst að þriggja ára týnd stúlka sé látin

Þórdís Valsdóttir skrifar
Stúlkan hvarf af heimili sínu aðfaranótt mánudags.
Stúlkan hvarf af heimili sínu aðfaranótt mánudags. Vísir/ap
Yfirvöld í Norður Karólínuríki í Bandaríkjunum hafa handtekið sambýlismann móður þriggja ára stúlku sem hefur verið týnd frá því 26. nóvember síðastliðinn.

Stúlkan, Mariah Woods, hvarf frá heimili sínu um miðja nótt aðfaranótt mánudags. Móðir stúlkunnar svæfði dóttur sína á sunnudagskvöldi og þegar hún vaknaði daginn eftir var stúlkan horfin og tilkynnti hún þá um hvarf hennar. Sambýlismaður móðurinnar segist hafa séð stúlkuna á fótum um miðnætti og sagt henni að fara aftur í háttinn.

Alríkislögregla Bandaríkjanna, landgönguliðar bandaríkjahers, fjöldi sjálfboðaliða og lögregluyfirvöld í Norður Karólínu hafa leitað stúlkunnar. Um 200 manns hafa aðstoðað við leitina.

Sambýlismaður móðir Woods er 32 ára gamall og hefur verið ákærður fyrir að hylma yfir dauða stúlkunnar, ásamt annarra glæpa, þó ekki sé vitað hvar hún er niðurkomin. Yfirvöld telja að sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn málsins bendi til þess að stúlkan sé látin.

Hinn ákærði hefur áður verið dæmdur til refsingar meðal annars fyrir rán, líkamsárás og óspektir á almannafæri undir áhrifum áfengis.

Faðir stúlkunnar segir að ekkert hald sé í yfirlýsingum móðurinnar um að einhver óviðkomandi fjölskyldunni hafi numið stúlkuna á brott. Hann segir í viðtali við CBS að hann telji ólíklegt að einhver hafi gengið inn í húsið og gripið stúlkuna án þess að neinn yrði var við það.

Engin merki um innbrot voru á heimili móðurinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×