Erlent

Sagði að nauðga ætti konum í rifnum gallabuxum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nabih al-Wahsh, lögfræðingur og þekktur íhaldsmaður í heimalandi sínu, sést hér fyrir utan réttarsal í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, árið 2001. Á þeim tíma stóð hann í málaferlum við egypska femínistann og rithöfundinn Nawal al-Saadawi en hann sakaði hana um að hafa talað á niðrandi hátt um íslam.
Nabih al-Wahsh, lögfræðingur og þekktur íhaldsmaður í heimalandi sínu, sést hér fyrir utan réttarsal í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, árið 2001. Á þeim tíma stóð hann í málaferlum við egypska femínistann og rithöfundinn Nawal al-Saadawi en hann sakaði hana um að hafa talað á niðrandi hátt um íslam. Vísir/AFP
Egypskur lögfræðingur hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að segja að konur sem klæðist rifnum gallabuxum eigi að vera nauðgað í refsingarskyni. BBC greinir frá.

Nabih al-Wahsh, lögfræðingur og þekktur íhaldsmaður í heimalandi sínu, var auk þess dæmdur til að greiða sekt að upphæð 20 þúsund egypskra punda eða um 116 þúsund íslenskra króna.

Wahsh tjáði þessa glæpsamlegu skoðun sína í sjónvarpsþætti í október síðastliðnum. Þangað var hann fenginn til að ræða lagasetningartillögu um vændi.

„Ertu ánægður þegar þú sérð stúlku ganga eftir götunni með hálfan rassinn til sýnis?“ sagði Wahsh í þættinum

„Mér finnst að þegar stúlka gengur um á þennan hátt, þá sé það skylda þjóðrækinna einstaklinga að áreita hana kynferðislega og skylda þjóðarinnar að nauðga henni,“ bætti hann við. Þá sagði hann að með því að klæðast efnislitlum fötum væru konur að bjóða karlmönnum að nauðga þeim.

Ummæli Wahsh voru harðlega gagnrýnd í Egyptalandi og var hann ákærður eftir umfangsmikil mótmæli. Egypsk landsnefnd um kvenréttindi fordæmdi enn fremur ummælin, sagði þau „svívirðileg“ og brjóta í bága við egypsku stjórnarskrána.

Wahsh er mjög umdeildur í heimalandi sínu. Hann hefur opinberlega lýst yfir andúð sinni á gyðingum og sagt Helförina „ímyndun“. Þá reifst hann við klerk í sjónvarpssal á síðasta ári eftir að klerkurinn sagði konur ekki endilega þurfa að ganga með slæðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×