Viðskipti innlent

Sjö ný skip frá Noregi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tölvugerð mynd af skipunum sjö sem samið var um smíði á. Lengst til vinstri eru tvö skip í litum Gjögurs, síðan kemur skip Útgerðarfélags Akureyringa, þá tvö skip Skinney-Þinganes og loks skip Bergs-Hugins.
Tölvugerð mynd af skipunum sjö sem samið var um smíði á. Lengst til vinstri eru tvö skip í litum Gjögurs, síðan kemur skip Útgerðarfélags Akureyringa, þá tvö skip Skinney-Þinganes og loks skip Bergs-Hugins. Síldarvinnslan
Fulltrúar fjögurra íslenskra útgerðarfyrirtækja undirrituðu þann 1. desember samninga um smíði níu nýrra togskipa.

Nýju skipin eru smíðuð af VARD í Noregi og fyrirkomulag og val á búnaði er unnið í samstarfi við útgerðirnar er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar, sem festi kaup á tveimur skipum.

Aðrar útgerðir sem undirrituðu samninga við VARD eru Skinney-Þinganes, Útgerðarfélag Akureyringa og Gjögur. Skinney-Þinganes og Gjögur festu kaup á tveimur skipum hvort og Útgerðarfélag Akureyringa keypti eitt.

Skipin verða 28,95 metrar að lengd og 12 metrar að breidd. Í skipunum verða íbúðir fyrir 13 manns og munu þau taka 244 x 460 lítra kör í lest sem gera um 80 tonn af ísuðum fiski.

Þá segir á vef Síldarvinnslunnar að við hönnun á vinnsludekki skipanna verði vinnuaðstaða sjómanna, öflug kæling og góð meðhöndlun á fiski höfð að leiðarljósi.

„Ástæða þess að ákveðið var að semja við VARD er sú að um er að ræða öflugt fyrirtæki, þar sem ferlið frá hönnun skips til afhendingar á fullbúnu skipi er á hendi sama aðila. Því er aðeins við einn aðila að semja,“ er haft eftir Gunnþóri B. Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, á vef fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×