Innlent

Alþingi sett á fimmtudag í næstu viku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á fimmtudagskvöldið í næstu viku fer fram umræða um stefnuræðu forsætisráðherra.
Á fimmtudagskvöldið í næstu viku fer fram umræða um stefnuræðu forsætisráðherra. vísir/gva
Þingsetning verður á fimmtudaginn í næstu viku, 14. desember, og um kvöldið verður umræða um stefnuræðu forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar tók við völdum á Bessastöðum á fimmtudaginn í síðustu viku. Daginn eftir, þann 1. Desember, fundaði ríkisstjórnin svo í fyrsta sinn og annar ríkisstjórnarfundurinn var svo í morgun.

 

Á meðal þess sem rætt var á fundinum var fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, en venju samkvæmt verður það fyrsta frumvarpið sem lagt verður fram þegar þing kemur saman í næstu viku.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í samtali við Vísi í gær að önnur frumvörp sem komi fram á þessu þingi snúi að lögfestingu NPA, breytingum á útlendingalögum og breytingum á almannatryggingakerfinu. Hann sagði líklegt að þing myndi funda á milli jóla og nýárs þar sem það sé ekki endilega raunhæft að ljúka öllum málum fyrir jól.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×