Erlent

Myrt eftir Tinderstefnumót

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sydney Loofe greindi frá fyrirætlunum sínum á Snapchat.
Sydney Loofe greindi frá fyrirætlunum sínum á Snapchat. Facebook
Lík bandarískrar konu sem fór á stefnumót með aðstoð smáforritsins Tinder um miðjan nóvembermánuð er fundið eftir um mánaðarleit.

Síðast sást til Sydney Loofe, sem er 24 ára frá Lincoln í Nebraska, þann 15. nóvember þegar hún hugðist hitta konu sem hún kynntist í gegnum forritið.

Par er grunað um að tengjast dauða hennar; kona á þrítugsaldri og meðleigjandi hennar. Þau birtu myndbönd á samfélagsmiðlum þar sem þau lýstu yfir sakleysi sínu.

Aubrey Trail (t.v.) og Bailey Boswell hafa verið handtekin vegna málsins.Lögreglan í Lincoln
Haft er eftir lögreglustjóra Lincolnborgar að stafræn gögn hafi vísað þeim að óbyggðum Clay-sýslu, sem er í suðurhluta Nebraskaríkis. Þar hafi lögreglan fundið lík á mánudag sem reyndist vera Loofe. Lögreglan telur að henni hafi verið ráðinn bani.

Fjölmargir höfðu leitað að konunni undanfarna daga, til að mynda fulltrúar Alríkislögreglunnar FBI.

Síðast sást til Loofe áður en hún fór á stefnumót með Bailey Boswell, konunni sem nú er í haldi lögreglunnar. Loofe sendi mynd á Snapchat þar sem hún sagðist vera „tilbúin fyrir stefnumótið“ en þær kynntust með aðstoð stefnumótaforritsins Tinder sem fyrr segir.

Boswell neitar allri sök og segist einungis hafa skutlað Loofe á stefnumótið.

Frétt BBC um málið má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×