Handbolti

Hollensku stelpurnar björguðu stiginu í blálokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hollensku stelpurnar náðu í stig.
Hollensku stelpurnar náðu í stig. Vísir/Getty
Holland og Serbía gerðu jafntefli í fjórðu umferð riðlakeppni heimsmeistarakeppni kvenna í handbolta en í dag var leikið í C- og D-riðli. Rússar eru enn með fullt hús en sluppu með skrekkinn á móti Japan.

Það leit allt út fyrir sigur Serba sem voru 27-24 yfir þegar fimm mínútur voru eftir. Hollensku stelpurnar skoruðu hinsvegar þrjú síðustu mörkin í leiknum og tryggðu sér jafntefli. Nycke Groot skoraði jöfnunarmarkið þegar fjórar sekúndur voru eftir.

Þýsku stelpurnar töpuðu sínu fyrsta stigi í jafntefli á móti Serbíu í gær en komust aftur á sigurbraut með fimmtán marka stórsigri á Kína í dag, 24-9. Þýska liðið er í efsta sæti riðilsins fyrir lokaumferðina.

Þýskaland, Serbía, Suður-Kórea og Holland eru öll búin að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum en lið Kamerún og Kína eru úr leik.

Rússar hafa unnið alla leiki sína en lentu í basli með Japan. Japönsku stelpurnar unnu Svartfjallaland í gær og töpuðu bara með einu marki á móti toppliði Rússlands í dag, 29-18.

Japanska liðið komst yfir í fyrri hálfleik eftir 5-0 kafla en Rússar voru 13-11 yfir í hálfleik og lengstum með frumkvæðið. Sigurinn var ekki í jafnmikilli hættu og úrslitin gefa tilefni til því Japan skoraði tvö síðustu mörk leiksins.

Það er ennþá mikil spenna í riðlinum. Rússar eru komnir áfram enda með fullt hús en dönsku stelpurnar geta einnig tryggt sig áfram seinna í kvöld.

Svartfjallaland var búið að tapa tveimur leikjum í röð en vann skyldusigur á Túnis í dag, 29-23.



Úrslit á HM kvenna í handbolta í dag:

C-riðill

Rússland - Japan 29-28

Túnis - Svartfjallaland   23-29

Danmörk - Rússland  Í kvöld

Stig þjóða: Rússland 8, Svartfjallaland 4, Danmörk 4,  Brasilía 3, Japan 3, Túnis 0.

D-riðill

Kamerún - Suður Kórea 21-33

Serbía - Holland 27-27

Þýskaland - Kína  24-9

Stig þjóða: Þýskaland 7, Serbía 6, Suður-Kórea 6, Holland 5, Kamerún 0, Kína 0.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×