Viðskipti innlent

Forréttabarnum verður lokað um stund

Baldur Guðmundsson skrifar
Róbert Ólafsson, eigandi Forréttabarsins.
Róbert Ólafsson, eigandi Forréttabarsins. Mynd/Neil John Smith
„Við gætum þurft að byrja á núlli,“ segir veitingamaðurinn Róbert Ólafsson, eigandi eins vinsælasta veitingastaðar landsins, Forréttabarsins, sem er til húsa við Nýlendugötu 14. Til stendur að ráðast í endurbætur á húsinu sem myndu hafa í för með sér að loka þyrfti veitingastaðnum um hríð.

Forréttabarinn er í þriðja sæti yfir bestu veitingastaði landsins á vefsíðunni TripAdvisor. Staðurinn fær þar 4,5 stjörnur af fimm mögulegum.

Jens Sandholt, annar eigenda hússins, segir að hugur eigendanna standi til að gera húsið upp frá grunni, í þeim anda sem það var byggt. „Húsið er orðið afar illa farið og þarfnast algjörrar endurnýjunar,“ segir hann við Fréttablaðið. Um sé að ræða gamalt iðnaðarhús sem sé óeinangrað að hluta.

Hann segir fyrirséð að viðgerðir verði kostnaðarsamar en eigendur binda vonir við að borgin heimili þeim að reka gistiþjónustu í húsinu. Hann tekur þó skýrt fram að ekkert sé í hendi hvað það varðar. „Þetta verður okkur dýrt, þetta hús, enda hefur því ekkert verið haldið við. Við þurfum að hafa einhverja starfsemi í húsinu sem getur staðið undir endurbyggingu,“ segir hann.

Samband íslenskra myndlistarmanna, SÍM, leigir húsið en sá leigusamningur rennur út í sumar. Í kjölfarið standi til að hefja framkvæmdir. Allt bendir því til þess að sambandið þurfi að finna starfseminni nýtt húsnæði.

Vilji bæði eigenda hússins og Forréttabarsins stendur til þess að Forréttabarinn verði áfram á jarðhæðinni að framkvæmdum loknum. Róbert segir að fjölgun gesta hafi verið viðvarandi öll þau fjögur ár sem hann hafi átt staðinn. Hann segir að þrátt fyrir mikinn straum ferðamanna sé meirihluti gesta Íslendingar. Róbert segir við Fréttablaðið að ef samningar náist um leigu muni Forréttabarinn fá mikla andlitslyftingu.

Aðspurður segir hann ekkert liggja fyrir um hvernig starfsmannamálum verði háttað, enda sé margt enn óljóst, en hann óttist að þurfa að byrja frá grunni í þeim efnum.

Jens segir að framkvæmdir við húsið, fáist fyrir þeim samþykki, gætu tekið um það bil eitt ár. Hann tekur þó fram að veitingastaðurinn þyrfti ekki að vera lokaður allan þann tíma.

Uppfært: Róbert vill koma því á framfæri að Forréttabarinn sé með gildandi leigusamning til 1. ágúst 2018. Staðnum verður því ekki lokað fyrir þann tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×