Enski boltinn

Enski boltinn settur til höfuðs X Factor og heilar umferðir sýndar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vísir/Getty
Stórar breytingar verða á sýningarétt ensku úrvalsdeildarinnar frá og með tímabilinu 2019-2020 en útboði á næsta pakka lýkur í febrúar. Þetta kemur fram í The Telegraph í dag.

Nú bætast við leikir á laugardagskvöldum og þá verða heilar umferðir sýndar nokkrum sinnum yfir tímabilið en búist er við tilboðum frá netrisunum Amazon og Facebook.

Enski boltinn verður settur til höfuðs vinsælum kvöldþáttum á laugardögum í Bretlandi eins og Strictly Come Dancing og The X Factor en forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar fengu grænt á þetta fyrr á árinu.

Átta leikir verða á laugardagskvöldum en úrvalsdeildin stefnir að því að fá meira en þær 5,14 milljarða punda sem Sky Sports og BT Sport borguðu fyrir síðasta sýningarétt í Bretlandi.

Í heildina verða sýndir 200 leikir af 380 í Bretlandi sem er 42 prósent meira en núna en þrívegis yfir tímabilið verða allir leikir sýndir þegar umferðir eru í miðri viku.

Leikirnir 200 skiptast niður í sjö pakka sem má sjá hér að neðan.

Pakki A:

32 leikir á laugardögum klukkan 12.30

Pakki B:

32 leikir á laugardögum klukkan 17.30

Pakki C:

32 leikir á sunnudögum klukkan 14.00 og 8 leikir á laugardagskvöldum klukkan 19.45

Pakki D:

32 leikir á sunnudögum klukkan 16.30

Pakki E:

24 leikir á mánudögum eða föstudögum klukkan 19.30 eða 20.00 og 8 leikir á sunnudögum klukkan 14.00

Pakki F:

20 leikir frá heilli umferð á mánudagsfrídegi eða umferð í miðri viku

Pakki G:

20 leikir frá tveimur umferðum í miðri viku




Fleiri fréttir

Sjá meira


×