Fótbolti

Emil orðaður við endurkomu til Verona

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mun Emil klæðast litum Verona að nýju?
Mun Emil klæðast litum Verona að nýju? vísir/getty
Emil Hallfreðsson gæti yfirgefið Udinese í janúar þar sem hann fær ekki að spila nógu mikið með félaginu. Þessu greina ítalskir fjölmiðlar frá í dag.

Þrátt fyrir að vera einn af reyndari mönnum liðsins þá hefur Emil þurft að sitja meira og meira á bekknum hjá ítalska félaginu.

Emil er orðaður við tvö lið í Seriu A, SPAL og Hellas Verona. Hann er sagður efstur á óskalista SPAL, þekking hans á ítölsku deildinni og sterklegur vöxtur tveir af hans bestu kostum. Liðin tvö, SPAL og Verona, mætast um helgina, og gæti leikurinn verið úrslitavaldur um hvort félagið Emil muni velja.

Emil var reglulega í byrjunarliði Íslands í lokaleikjum undankeppni Heimsmeistaramótsins og vonast eftir því að tryggja sér sæti í hópnum sem fer til Rússlands næsta sumar.

Tíu ár eru síðan Emil fór fyrst til Ítalíu, þegar hann samdi við Reggina. Hann hefur verið þar í landi allar götur síðan, að undanskyldu einu tímabili á láni hjá Barnsley í Englandi. Hann fór til Hellas Verona 2011 en samdi við Udinese í janúar 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×