Innlent

Davíð ætlaði að vaða í Steingrím strax eftir gungu- og drusluummælin

Jakob Bjarnar skrifar
Ýmsir hafa furðað sig á því að Davíð hafi látið sem vind um eyru þjóta það þegar Steingrímur kallaði hann druslu og gungu. En, það var ekki svo.
Ýmsir hafa furðað sig á því að Davíð hafi látið sem vind um eyru þjóta það þegar Steingrímur kallaði hann druslu og gungu. En, það var ekki svo.
Í nýrri bók Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings, „í liði forsætisráðherrans eða ekki?“ sem fjallar um einkavæðingu bankanna og hatrömm átök Davíðs Oddssonar, valdamesta manns landsins, við ýmsa innan viðskiptalífsins og víðar, kemur ýmislegt nýtt fram.

Meðal annars er farið í saumana á fjölmiðlafrumvarpsmálinu, sem var vendipunktur í sögu Davíðs og þar með þjóðarinnar. Sá sem les bókina ætti ekki að þurfa að velkjast í vafa um að miklir skapsmunir Davíðs voru um langt skeið ráðandi faktor í þjóðlífinu og eru jafnvel enn.

Óttaðist að Davíð segði eitthvað sem ekki yrði aftur tekið

Fræg er afar harðskeytt ræða Steingríms J. Sigfússonar, nú forseta Alþingis en þá formanns VG, sem beindi spjótum sínum að forsætisráðherra með frýjunarorðum og glósum; kallaði hann meðal annars druslu og gungu og hvort hann þyrði ekki í ræðustól Alþingis?

Davíð og þá þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Drífa Hjartardóttir, fylgdust með þessari ræðu í þingflokksherbergi flokksins og að sögn Drífu fylltist Davíð bræði og vildi rjúka í ræðustól. Drífa þurfti nánast að halda Davíð, taldi hann ekki í ástandi til að tjá sig, hann hefði ekki stjórn á skapi sínu. „Drífa óttaðist að Davíð myndi láta ummæli falla í ræðustól sem ekki yrðu aftur tekin og hélt honum því niðri.“

Í bókinni er einnig farið í saumana á Bolludagsmálinu svokallaða og af lestri bókar er helst að skilja, þar sem byggt er á samtölum við Hrein Loftsson, fyrrverandi aðstoðarmann Davíðs og þá stjórnarformann Baugs, sem ekki hafa áður komið fram, að Davíð Oddsson hafi hreinlega verið að fylgja eftir hótunum sínum þegar hann hélt því fram að Baugur vildi bera á hann 300 milljónir í mútur gegn því að hann drægi sig í hlé. Eiginkona Hreins varð vitni að því samtali. Vísir birtir brot úr bókinni þar sem greinir frá þessu.

Byggt á vitnisburði fjölda viðmælenda

Af nægu er að taka og ekki víst að allir verði kátir með það sem fram kemur í bókinni. Björn Jón segist undanfarin árin unnið að ýmsum sagnfræðirannsóknum á viðskiptalífi og pólitíkinni í okkar samtíma og talsvert mikið magn heimilda hefur safnast saman við þá vinnu.

Björn Jón segir að átök Davíðs við helstu athafnamenn þjóðarinnar eigi sér engin fordæmi.visir/haraldur guðjónsson
„Ég hugsa að viðmælendur mínir séu orðnir vel á annað hundrað. Þá hugðum við Eyjólfur Sveinsson, verkfræðingur í Kaliforníu, um tíma á útgáfu bókar um Orcahópinn. Ekkert varð af þeirri bók, en samstarfið við Eyjólf var mér ákaflega lærdómsríkt. Eyjólfur er hafsjór af fróðleik um þjóðfélagsmál og ég þekki engan sem hefur næmari sýn á íslenskt samfélag, sem er merkilegt því hann hefur dvalið vestanhafs lungann úr sinni starfsævi. Hans saga er líka er líka stórmerkileg og ég segi hana að nokkru leyti í bókinni.“

Bókin hverfist um þau miklu átök í íslensku þjóðlífi sem risu um eignarhald á bönkum. Björn Jón segir fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar um bankahrunið og rætur þess, „en án þess að ég vilji hljóma hrokafullur hefur mér fundist skorta á yfirsýn þeirra sem skrifa um þau mál og þá eru margar bækur skrifaðar af málsaðilum eða talsmönnum þeirra þannig að frásögnin verður broguð og mikilsverðum þáttum jafnvel sleppt til að halla ekki á einkavini skrásetjarans.“

Davíð í stríði við helstu athafnamenn landsins

Björn Jón leggur áherslu á að ekki sé um „hrunbók“ að ræða heldur saga af stigmagnandi átökum í íslensku þjóðlífi þar sem menn skipuðu sér í lið með og á móti forsætisráðherranum Davíð Oddssyni.

Meðal fjölmargra sem áttu í miklum erjum við Davíð var Ingibjörg Sólrún, en tiltill bókarinnar er sóttur í margfræga Borgarnesræðu hennar.visir/anton brink
„Ég held að það séu fá dæmi í sögu Vesturlanda á seinni tímum um mann sem hefur haft jafnyfirþyrmandi stöðu í allri þjóðfélagsumræðu, enda Davíð feikilega slyngur stjórnmálamaður. Mér hefur fundist skorta á málefnalega og yfirvegaða umræðu um síðari ár hans á stóli forsætisráðherra þegar hann var kominn í stríð við helstu athafnamenn landsins og svo fór að forseti Íslands og forystumenn höfuðstjórnarandstöðuflokksins, Samfylkingarinnar, fylktu liði á móti forsætisráðherranum, eða eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurði í fyrri Borgarnesræðunni: „Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki – þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gagnsæju leikreglur lýðræðisins taki við.“ Ég tek enga afstöðu til þessara orða Ingibjargar, en hún fangaði ákveðna stemningu í samfélaginu með ræðu sinni og ég notaði línur úr þessari frægu ræðu í titli bókarinnar.“

Valgeir tilbúinn með nýtt lag þegar sameiningin var blásin af

Eins og áður hefur komið fram tiplar Björn Jón ekki á tánum í kringum þessa afdrifaríku atburði sem um ræðir.

„Ég leyfi mér að fullyrða að einkavæðing bankanna eins og hún var framkvæmd árin 2002 og 2003 hefði verið óhugsandi fimm árum fyrr. Sú aðferð sem notuð var við einkavæðinguna var afleiðing stigmagnandi átaka sem ég segi frá í bókinni og mörgu af því eru menn búnir að gleyma, eins og fyrirhugaðri sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans sem dæmi, þegar veitingarnar voru komnar á borð og Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður tilbúinn með glænýtt lag í tilefni sameiningarinnar – en skyndilega kemur reiðarslagið og samkeppnisráð fellir þann úrskurð að bönkunum sé óheimilt að sameinast.“

Ótrúleg staða Davíðs

Við erum enn að súpa seyðið af afleiðingum þess sem gerðist á þessum tíma í ýmsum skilningi en nú þegar rykið er farið að setjast er orðið tímabært, að sögn Björns Jóns, að ræða málin með yfirveguðum hætti og hlutlægum. Þá þurfi menn á hægrivæng stjórnmálanna að vera tilbúnir til að ræða um embættisverk Davíðs Oddssonar með hlutlægum hætti og sama gildir um aðrar höfuðpersónur þessara sögu. Allir ættu að fá að njóta sannmælis.

„Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn þarfnist nauðsynlega uppgjörs við þennan tíma. Í bókinni rifja ég upp þá miklu vinnu sem unnin var af endurreisnarnefnd flokksins sem Vilhjálmur Egilsson kynnti á landsfundi 2009. Davíð Oddsson mætti þá upp í pontu og tætti í sig skýrsluna og hafði uppi ýmsa brandara um nektardansstaði og þar fram eftir götunum. Það er til marks um ótrúlega stöðu Davíðs í flokknum að skýrslan var varla rædd meira eftir þetta og öllu „uppgjöri“ slegið á frest.“

Síðan þegar fjölmiðlamenn ræddu við Bjarna Benediktsson, nýkjörinn formann, var þeirra fyrsta spurning: „Hvað fannst þér um ræðu Davíðs?““

Áhrif Davíðs voru mikil og enn stýrir hann umfjöllun um þessa atburði sem ritstjóri Morgunblaðsins. En, við skulum skoða nánar tvö brot í bókinni þar sem fram kemur vitnisburður sem ekki hefur komið fram áður. Fyrst er það upphlaupið í þinginu þegar Steingrímur J. Sigfússon, forseti sameinaðs Alþingis fer mikinn og nær að koma Davíð úr jafnvægi. Nokkuð sem menn hafa hingað til þurft að geta sér til um. Þá grípum við niður í bókina þar sem segir af hinu mikla Bolludagsmáli.

Drífa heldur Davíð niðri

„Þáverandi þingmönnum ber almennt saman um að þessi tími hafi verið afar erfiður [þegar fjölmiðlamálið stóð sem hæst]. Drífa Hjartardóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, fékk til að mynda hótanir frá blaðamönnum þess efnis að „henni yrði ekki hlíft“ ef flokkurinn hætti ekki við málið.

Drífa Hjartardóttir þurfti að halda Davíð niðri, hún taldi hann bræði hans slíka að það væri hvorki honum né flokknum hollt að hann færi í ræðustól.
„Þið verðið jarðaðir“ var sagt við hana og líka: „Þetta verður látið bitna á ykkur.“ Sjálfstæðismenn hafi samt sem áður verið alltof einstrengingslegir í þessu máli að hennar mati. Það hafi ekki þurft að sýna svo mikla hörku, en úr því að lagt var upp með málið með þessum hætti var orðið erfitt að hverfa til baka. Menn gátu ekki farið að beygja sig. Þetta hefði verið „hryllilegur tími“ á þinginu og nálega allir fjölmiðlar á móti sjálfstæðismönnum.

Drífa telur að sér í lagi hafi Davíð gengið of langt. Hún hafi gert sér grein fyrir því að hann var veikur. Veikindin hafi meðal annars birst í miklum skapsveiflum, en Davíð hefði verið mjög uppstökkur um þetta leyti. Hún segir að sjálfstæðismenn hafi óttast að Ólafur Ragnar myndi ekki samþykkja frumvarpið, en það hafi ef til vill skýrst af veikindum Davíðs hvers vegna hann gekk svona langt, vitandi það að líkur væru á að lögunum yrði synjað. Í reynd hafi Sjálfstæðisflokkurinn „lagt vopnin upp í hendurnar á forsetanum,“ sem vildi komast í sögubækurnar í eigin framapoti.

Í miðjum darraðardansinum sátu þau tvö saman í þingflokksherbergi sjálfstæðismanna, Davíð og Drífa, og fylgdust á sjónvarpsskjá með Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri grænna, flytja ræðu uppi í þingsalnum, en þingflokksherbergið er á fyrstu hæð hússins. Steingrímur lét ljót orð falla um Davíð, kallaði hann meðal annars „gungu“ og „druslu“ og heimtaði að forsætisráðherrann mætti í salinn til að svara sér. Drífa segir Davíð hafa fyllst bræði og viljað skunda upp í þingsalinn til að svara Steingrími fullum hálsi. Hún taldi að Davíð væri ekki í ástandi til að tjá sig, hann hefði því ekki fyllilega stjórn á skapi sínu. Drífa óttaðist að Davíð myndi láta ummæli falla í ræðustól sem ekki yrðu aftur tekin og hélt honum því niðri. Guðmundur Árni Stefánsson þingforseti bankaði á dyr þingflokksherbergisins. Drífa kom í dyragættina. Guðmundur Árni sagði að beðið væri eftir forsætisráðherra í þingsalnum. Drífa svaraði honum því til að Davíð kæmist ekki upp, þau væru á mikilvægum fundi.“

(Bls. 129 og áfram.)

Davíð sagði við Hrein að ef hann drægi ekki tiltekin ummæli til baka, þá myndi hann segja í útvarpið að Baugur hafi reynt að múta sér. Hreinn sagðist ekki geta það og Davíð fylgdi hótun sinni eftir eins og frægt varð.
„Eins og í mafíubíómyndum“

Forsíðufrétt Fréttablaðsins um Lundúnafundinn og umræðurnar um hann í stjórn Baugs birtust á laugardegi og vöktu að vonum athygli. Eldsnemma að morgni mánudagsins 3. mars hringdi Skarphéðinn Berg Steinarsson, þá orðinn starfsmaður Baugs, til Hreins Loftssonar, sem var staddur í Churchill-hótelinu í Lundúnum ásamt Ingibjörgu Kjartansdóttur, konu sinni. Skarphéðinn bar Hreini þau skilaboð að Davíð þyrfti að ná tali af honum. Davíð mun hafa orðað þetta svo að Hreinn „hefði betur af“ því að tala við sig. Hreinn hringdi undireins í Davíð sem talaði svo hátt að Ingibjörg gat hlustað á allt samtalið. Davíð kvaðst vera á leið í útvarpið og vildi að Hreinn bæri til baka þær fréttir sem fram hefðu komið í fjölmiðlum, en Davíð hafði þá skömmu áður sagt frá því opinberlega að hann þekkti ekki til Jóns Geralds Sullenberger, sem hann nefndi þó „Jón Gerharð“ eða „Jón Gerhard“. Hreinn svaraði: „Ég get ekki borið þetta til baka“ og sagði marga vita sannleikann í málinu. Davíð svaraði þá: „Ertu að segja að ég sé að ljúga?“ Hreinn spurði á móti hvort Davíð væri að segja að hann væri að ljúga. Davíð heimtaði að Hreinn bæri hin meintu ummæli til baka, ella myndi hann segja frá því í útvarpinu að Jón Ásgeir hefði ætlað að bera á sig fé. Davíð var mjög hvassyrtur og Ingibjörg, kona Hreins, hafði á orði að þetta væri líkast því sem hún hefði séð í mafíubíómyndum.

***

Víkur nú sögunni að Hreini Loftssyni. Eftir að hafa hlýtt á viðtalið við Davíð í gegnum síma hringdi hann sjálfur í útvarpið og fékk að tjá sig í beinni útsendingu og segja sína hlið á málinu. Hreinn hitti Jón Scheving Thorsteinsson, starfsmann Baugs, á skrifstofum Baugs í Lundúnum sama dag og Jón sýndi honum þá sms-skilaboð sem hann hafði fengið frá eiginmanni þingkonu, sem gat staðfest að Davíð hefði mikið rætt um „Jón Gerhard“ í lok janúar 2002. Hreinn sat síðar þennan sama dag á kaffistofunni í Harrods og át snúð þegar sameiginlegur vinur þeirra Davíðs hringdi grátandi og spurði í örvæntingu: „Og eruð þið Davíð ekki vinir lengur?“

Forsíðufrétt Fréttablaðsins 1. mars 2003.
Þegar Hreinn lenti á Keflavíkurflugvelli á miðvikudagsmorgni voru fjölmiðlamenn mættir inn fyrir tollhliðin í Leifsstöð – tilbúnir með spurningar. Þetta kom flatt upp á Hrein og þegar hann síðan kom að heimili sínu í Garðabæ biðu þeir Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður Davíðs, og Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, einkavinur Davíðs, fyrir utan og þangað komu líka Skarphéðinn Berg Steinarsson, starfsmaður Baugs, Þórður Bogason, lögfræðingur sem starfaði með Hreini, og Gunnar Þór Þórarinsson, sem þá var aðstoðarmaður Hreins á lögmannsstofu hans. Illugi og Hannes höfðuðu til Hreins sem sjálfstæðismanns og hvöttu hann til að slíðra sverðin. Koma þyrfti á sáttum milli þeirra Davíðs. Hreinn féllst á það. Skyldu þeir Davíð hittast næsta laugardag. Raunar vildu ýmsir fleiri miðla málum í óbeðnum erindisrekstri, þar á meðal voru Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi og Jón Kristinn Snæhólm stjórnmálafræðingur.

Hreinn kvaðst vera tilbúinn til sátta í ljósi þess að í aðdraganda væru alþingiskosningar og menn vildu ekki fá yfir sig vinstristjórn. Illugi og Hannes Hólmsteinn sátu fram eftir kvöldi hjá Hreini og keypti Hreinn handa þeim kínverskan mat „take-away“, sem var vel við hæfi því þeir Hreinn og Davíð höfðu einnig snætt kínverskan mat á veitingahúsi í Lundúnum ári áður. Hreinn orðar það svo að hann hafi „dregist inn á“ sættir í málinu. Davíð og hans menn hefðu ekki staðið við samninginn af sinni hálfu. Hreinn tekur þessa sáttagjörð til vitnis um það að hann hafi sett hagsmuni flokksins í öndvegi, svo tal um að hann hefði selt Baugsmönnum sálu sína sé með öllu fráleitt. Á föstudeginum kom í ljós að Davíð vildi fresta fundinum um viku. Fundurinn fór ekki fram og þeir Hreinn og Davíð hafa aldrei hist síðan.“

(Bls. 105. Hreinn í Lundúnum og áfram.)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×