Handbolti

Japanir áfram í 16-liða úrslit

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Japanska liðið tryggði sig upp úr C-riðli
Japanska liðið tryggði sig upp úr C-riðli vísir/getty
Japan bar sigurorð af Túnis í lokaleik sínum í C-riðli Heimsmeistaramóts kvenna í handbolta og tryggði sig áfram í 16-liða úrslit mótsins.

Sigur Japans var aldrei í hættu. Hálfleikstölur voru 15-6 og leiknum lauk með 31-13 sigri Japan.

Aya Yokoshima var markahæst með 8 mörk og Sakura Kametani fór á kostum í markinu, varði 18 af 31 skoti sem hún fékk á sig, eða 58 prósent.

Kína og Kamerún gerðu 26-26 jafntefli í D-riðli. Þegar 90 sekúndur voru eftir af leiknum voru Kínverjar yfir með þremur mörkum, en Kamerún náði með ótrúlegum hætti að jafna leikinn.

Angóla og Paragvæ mættust í A-riðli, en bæði lið voru nú þegar úr leik á mótinu. Leiknum lauk með 32-28 sigri Angóla.

Þetta var fyrsti sigurleikur Angóla á mótinu, en Paragvæ vann ekki leik.

Í B-riðli mættust einnig tvö lið sem voru úr leik á mótinu, Argentína og Pólland. Pólverjar fóru með átján marka stórsigur, 20-38.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×