Innlent

Gagnrýnir að ferðamönnum standi til boða að gista í tjaldvögnum á nýársnótt

Birgir Olgeirsson skrifar
Upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar er allt annað en sáttur við að verið sé að bjóða ferðamönnum upp á að leigja tjaldvagna til að gista í á nýársnótt í gegnum Airbnb.
Upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar er allt annað en sáttur við að verið sé að bjóða ferðamönnum upp á að leigja tjaldvagna til að gista í á nýársnótt í gegnum Airbnb. Vísir
Fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar segir ekki boðlegt að ferðamönnum standi til boða gisting í gömlum bílum, tjöldum og tjaldvögnum í Reykjavík á nýársnótt á vef Airbnb. Greint er frá þessu á vef Túrista þar sem rætt er við Skapta Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúa Samtaka ferðaþjónustunnar.

Í frétt Túrista kemur fram að ferðafólki sem er á leið til Íslands yfir áramótin standi til boða að leigja sér tjaldvagna eða jafnvel fólksbíla með dýnu.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir skemmstu að aðeins eitt prósent af gistirými á vef gistimiðlunarinnar Airbnb í Reykjavík séu á lausu yfir áramótin og aðeins örfá hótelherbergi.

Í frétt Túrista segir að leiguverðið á tjaldvagni sé ekki lágt. Þannig kosti að leigja tjaldvagn, sem sagður er í Laugardal, um 22 þúsund krónur á nótt og sólarhringsleiga á gamalli Toyota Corolla, með tjaldi í skottinu, sé á sex þúsund krónur.

Skapti Örn Ólafsson segir við Túrista að um sé að ræða óviðunandi aðstöðu fyrir ferðamenn þar sem hvorki sé hugað að öryggi né gæðum af neinu tagi. Leyfislaus starfsemi sem þessi sé ólíðandi að mati Skapta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×