Fótbolti

Best ef Lionel Messi mætti bara með 23 treyjur í leikinn á móti Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Diego Jóhannesson.
Lionel Messi og Diego Jóhannesson. Vísir/Samsett/Getty og AFP
Lionel Messi og félagar í argentínska landsliðinu munu mæta því íslenska í fyrsta leik sínum á HM í Rússlandi næsta sumar.  Leikurinn fer fram í Moskvu 16. júní í sumar.

Það má búast við að þessi leikur þjóðanna veki mikla athygli í fótboltaheiminum enda argentínska landsliðið eitt þeirra liða sem er búist við að berjist um heimsmeistaratitilinn og Ísland að endurskrifa sögu HM með því að spila sinn fyrsta leik frá upphafi í úrslitakeppni HM.

Ísland verður langfámennasta þjóðin til að taka þátt í HM og hér á landi búa sem dæmi þremur milljónum færri íbúar en í Úrúgvæ sem er næstfámennasta þjóðin sem tekur þátt í HM í Rússlandi næsta sumar.

Erlendir fjölmiðlar hafa að sjálfsögðu mikinn áhuga á íslenska landsliðinu og að tala við íslensku landsliðsmennina. Þar er Diego Jóhannesson enginn undantekning. Hann var í viðtali í argentínska blaðinu Ole.

Diego er líklega eini leikmaður íslenska landsliðsins sem talar betri spænsku en íslensku. ESPN segir frá þessu viðtali hans í Ole.





„Allir leikmenn íslenska liðsins vilja fá treyjuna hans Messi og ég er einn þeirra,“ sagði Diego Jóhannesson við Ole.  

„Hann mun líklega láta þann fá treyjuna sem spyr fyrst. Við ætlum nú ekki að rífast um hana en ég legg til að hann komi bara með 23 treyjur í leikinn,“ sagði Diego í léttum tón.

„Við erum ánægðir með að fá tækifæri til að spila á móti honum því hann er sá besti í heimi,“ sagði Diego.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×