Körfubolti

Martin allt í öllu þegar Chalons-Reims endaði taphrinuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Vísir/Anton
Martin Hermannsson átti mjög góðan leik í kvöld þegar lið hans Chalons-Reims endaði fimm leikja taphrinu í frönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Chalons-Reims vann á endanum með sex stiga mun, 70-64, eftir æsispennandi leik. Þetta var virkilega langþráður sigur eða sá fyrsti í deildinni síðan 20. október.

Martin var frábær í kvöld með 21 stig, 7 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Hann hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum þar af setti hann niður tvo risastóra þriggja stiga körfur í lokaleikhlutanum.

Enginn á vellinum var með fleiri framlagsstig (27), fleiri stig (21), fleiri þrista (4) fleiri stoðsendingar (7) eða fleiri stolna bolta (3) en íslenski landsliðsbakvörðurinn.

Chalons-Reims var 18-14 yfir eftir fyrsta leikhlutann en Hyères-Toulon vann annan leikkhlutann 26-17.

Martin var með 11 stig og 2 stoðsendingar í fyrri hálfleiknum en Chalons-Reims var fimm stigum undir í hálfleik, 35-40.

Hyères-Toulon komst níu stigum yfir í upphafi seinni hálfleik, 38-47, en Martin raðaði inn fjórum stoðsendingum á stuttum tíma, Chalons-Reims náði að jafna og síðan að komast yfir.

Martin og félagar voru þremur stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 54-51, eftir að Martin endaði leikhlutann á því að skora góða körfu.

Lokaleikhlutinn var æsispennandi en Martin setti niður nokkur stór skot og leiddi sitt lið til sigurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×