Lífið

Falskur aðgangur Íslandsbanka á Twitter gerir grín að auglýsingaherferð bankans

Birgir Olgeirsson skrifar
Við erum alveg róleg eins og er, segir samskiptastjóri Íslandsbanka, um grínið sem er gert á kostnað bankans.
Við erum alveg róleg eins og er, segir samskiptastjóri Íslandsbanka, um grínið sem er gert á kostnað bankans. Vísir/Anton Brink
„Þetta er ekki neitt sem við könnumst við,“ segir Edda Hermannsdóttir, samskipta stjóri Íslandsbanka, um Twitter-reikning sem gefur sig út fyrir að vera Íslandsbanki. 

Þar er gert grín að nýrri herferð Íslandsbanka undir myllumerkinu #farasparabara

Íslandsbanki sjálfur hefur lagt fram spurningar á borð við „Ísbúð eða íbúð“ og hvatt um leið viðskiptavini sína til að huga að reglubundnum sparnaði. 

Á Twitter er Íslandsbanki með notandanafnið @islandsbanki en falski Íslandsbankanotandinn gengur undir @islandsbankinn

Þar má finna spurningar á borð við „Stunda vændi eða Siggi frændi?“ , „Skrifborð eða sjálfsmorð?“, „Fá sér úr eða fara á túr?“ og „Húsafell eða sifjaspell?“ svo dæmi séu tekin. 

Hefur þessi falski Íslandsbankaaðgangur á Twitter vakið mikla athygli en Edda segir starfsmenn Íslandsbanka hafa fengið fregnir af honum fyrr í dag og verið sé að skoða málin, meðal annars hvort farið verði fram á að loka honum. 

„Við erum bara að skoða þetta og höfum ekki tekið ákvörðun um neitt slíkt. Við erum alveg róleg eins og er,“ segir Edda. 

„Það er auðvitað bagalegt þegar svona er, það er ekki annað hægt að segja,“ segir Edda jafnframt en vildi lítið frekar tjá sig um málið að svo stöddu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×