Erlent

Bandarískum hermönnum fyrirskipað að hætta að drekka

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Herstöð Bandaríkjamanna á Okinawa hýsir þúsundir hermanna.
Herstöð Bandaríkjamanna á Okinawa hýsir þúsundir hermanna. Vísir/AFp
Bandaríkjaher hefur lagt blátt bann við áfengisdrykkju á alla liðsmenn sína í Japan í kjölfar banaslyss. Þá hefur þeim jafnframt verið bannað að yfirgefa herstöðvar og heimili sín að sögn breska ríkisútvarpsins sem hefur þetta eftir heimildarmönnum innan úr Bandaríkjaher. Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem bandarískir hermenn eru settir í áfengis- og útgöngubann.

Bönnunum var komið á eftir að drukkinn bandarískur hermaður ók jeppa sínum í gær inn í aðra bifreið með þeim afleiðingum að ökumaðurinn, sem var innfæddur, beið bana.

Slysið varð á eyjunni Okinawa þar sem helmingur allra bandarískra hermanna í Japan, næstum 26 þúsund manns, dvelur. Heimamenn hafa lengi haft horn í síðu þessa gríðarlega hermannafjölda sem þeir segja ábyrgan fyrir fjölda afbrota og slysa á eyjunni síðustu ár.

Andstaða þeirra við herinn hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 1995 þegar hópur hermanna nauðgaði 12 ára stúlku frá Okinawa. Þá var innfædd kona myrt á eyjunni í fyrra af fyrrverandi hermanni. Óttast er að upp úr kunni að sjóða eftir banaslysið í gær.

Eyjan er Bandaríkjamönnum og Japönum hernaðarlega mikilvæg enda ekki nema um 500 kílómetra undan ströndum Taívans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×