Enski boltinn

Messan um Gylfa: Unsworth ætlaði að vera harður við Gylfa en Gylfi vinnur alltaf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Benediktsson og félagar í Messunni voru ánægðir með íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson um helgina en Gylfi lagði þá upp jöfnunarmark Everton á móti Crystal Palace. Þetta var fyrsta stoðsending Gylfa í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Ríkharður Daðason og Reynir Leósson voru gestir Gumma Ben að þessu sinni og þeir sjá jákvæða þróun í sambandi Gylfa og knattspyrnustjórans David Unsworth sem tók við liðinu tímabundið á meðan Everton leitaði af eftirmanni Ronald Koeman.

„Við erum ennþá að bíða eftir því að Gylfi fái stjóra og við erum með David Unsworth þarna ennþá. Það er klárt mál að þeir eru að leita að réttum manni. Ég er allavega ánægður með að þeir séu ekki tilbúnir að taka hvað sem er,“ sagði Guðmundur Benediktsson.

„Það var jákvætt fyrir Gylfa eftir landsleikjahlé, þegar hann er búinn að vera í burtu í tíu daga, að hann fær að spila í 90 mínútur í sinni upphaldsstöðu,“ sagði Ríkharður Daðason en fékk þá smá athugasemd frá Reyni Leóssyni.

„Hann færði hann reyndar í seinni hálfleik út á vinstri vænginn þegar stjórinn gerir breytingu í hálfleik,“ sagði Reynir. Ríkharður leggur samt áherslu á það að sambandið við stjórann sé að lagast.

„Rooney situr á bekknum allan tímann. Gylfi fékk hrós fyrir vinnusemina og vinnuframlagið eins og hann gerir alltaf. Hann hrósaði stjóranum á móti og það er eins og sambandið sé að þroskast og þróast. Unsworth er að sjá hvað okkar maður getur,“ sagði Ríkharður.

„Ég held að Gylfi vinni alltaf. Þegar stjórarnir fara að kynnast honum. Það er aldrei neitt vesen á honum, hann leggur sig alltaf fram og hann er hinn fullkomni atvinnumaður. Þá getur ekki annað en tekið hann inn. Hann ætlaði að vera harður við Gylfa í byrjun og setja dýrasta leikmanninn til hliðar en hann er kominn til baka úr þeirri ákvörðun,“ sagði Reynir.

Guðmundur, Reynir og Ríkharður ræddu stöðu Gylfa og má sjá allt innslagið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×