Fótbolti

Elísabet: Ég er ekki að reyna að stela leikmönnum frá Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir. Mynd/Heimasíða Kristianstads DFF
Elísabet Gunnarsdóttir var á mánudagskvöldið kosin besti þjálfarinn í sænska kvennadeildinni í fótbolta á Fotballsgalan 2017 en undir hennar stjórn endaði Kristianstad liðið í fimmta sæti.

Elísabet segir í viðtali við Víði Sigurðsson í Morgunblaðinu í dag að það hafi komið henni gríðarlega á óvart að fá þessi verðlaun. Elísabet talar líka um það þegar hún reyndi að styrkja liðið sitt með íslenskum stelpum síðasta sumar.

„Það er ekkert leyndarmál að ég reyndi seinnipartinn í sumar að fá Guðnýju Árnadóttur úr FH og Ingibjörgu Sigurðardóttur úr Breiðabliki lánaðar. Þær sögðu báðar nei og félögin voru heldur ekki samvinnuþýð. Ég myndi vilja sjá breytt hugarfar heima á Íslandi,“ sagði Elísabet og útskýrði nánar.

„Ég er ekki að reyna að stela leikmönnum en þarna bar ég tilbúin að gefa ungum leikmönnum, 17 og 19 ára, byrjunarliðssæti í sænsku úrvalsdeildinni. Þær hefðu í stað örfárra leikja heima fengið ellefu leiki í þessari deild og öðlast mikilvæga reynslu,“ sagði Elísabet.

Elísabet er að byrja sitt tíunda ár með Kristianstad liðið en síðustu misserin hefur hún bæði þurft að vinna í málum innan og utan vallar því félagið hefur glímt við mikla fjárhagsvandræði og var árið 2016 hársbreidd frá gjaldþroti.

Elísabet kom ekki liðinu aðeins upp úr fallbaráttunni og upp í miðja deild heldur er félagið einnig komið í fjárhagslegt jafnvægi.

Það má lesa viðtalið við hana í Morgunblaðinu með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×