Erlent

Týndur norskur drengur fannst látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mikil leit var gerð að drengnum í gær.
Mikil leit var gerð að drengnum í gær. Norski Rauði Krossinn/VG
Sjö ára norskur drengur fannst látinn í ísilagðri tjörn skammt frá skólanum sínum í bænum Askim í nótt.

Hans hafði verið saknað frá því seinni partinn í gær og telur lögreglan að hann hafi verið lengi í tjörninni. Um það bil fimm stiga frost var á svæðinu í nótt. Mikil leit var gerð að drengnum og naut lögreglan aðstoðar norska Rauða krossins, fjölda sjálfboðaliða og leitarhunda.

Rætt er við lögreglumenn á vefsíðu VG sem segja að drengurinn hafi fundist upp úr miðnætti. Búið sé að láta aðstandendur drengsins vita og að nú hlúi áfallateymi að þeim.

Ekki sé hægt að fullyrða um dánarorsök að svo stöddu eða um nákvæma dánarstund. Lögreglan vill ekki gefa upp á þessari stundu hvort grunur leiki á honum hafi verið ráðinn bani.

Bæjarstjórinn í Askim segir að þetta sé sorglegur dagur í sögu bæjarfélagsins. Hugur allra sé hjá fjölskyldu drengsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×