Fótbolti

Brjálaðir stuðningsmenn Bayern hentu peningaseðlum inn á völlinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dómari leiksins tínir upp peningaseðla af grasinu í gær.
Dómari leiksins tínir upp peningaseðla af grasinu í gær. Vísir/Getty
Bayern München vann 2-1 útisigur á Anderlecht í Meistaradeildinni í gærkvöldi en það var framkoma stuðningsmanna Bæjara sem vakti líklega meiri athygli heldur en fótboltinn sem var spilaður inn á vellinum.

Brjálaðir stuðningsmenn Bayern hentu nefnilega plat peningaseðlum inn á völlinn til að mótmæla háu verði á miða á útileiki Bayern-liðsins í Meistaradeildinni. BBC segir frá.

Það þurfti að stoppa leikinn um stund á meðan leikmennirnir söfnuðu saman peningunum af grasinu.

Anderlecht rukkaði stuðningsmenn Bayern München allt að 100 evrum fyrir miða á leikinn, rúmlega 12.300 krónur íslenskar, en leikurinn fór fram í höfuðborg Belgíu, Brussel.

Bayern sagði blaðamanni BBC frá því að þeir höfðu greitt niður miða stuðningsmanna sinna um 30 prósent sem þýddi að Bayern stuðningsfólkið borgaði 70 evrur fyrir miðann en ekki hundrað evrur. 70 evrur eru samt meira en 8600 krónur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stuðningsmenn Bæjara mótmæla háu miðaverði þeir gerðu það meðal annars á móti Arsenal í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrr á þessu ári.

Það má segja að þessi mótmæli hafi hafist á deildarleik á móti Alfreð Finnbogasyni og félögum í Augsburg um síðustu helgi en þá voru stuðningsmenn Bayern í stúkunni að mótmæla miðaverðinu á Anderlecht leikinn.

Bayern er öruggt áfram í sextán liða úrslitin en liðið er samt í öðru sæti í sínum riðli á eftir Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×