Handbolti

Kennarar í Vestmannaeyjum hafa áhyggjur af fjarveru Erlings

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Erlingur Richardsson var áður þjálfari Füchse Berlin.
Erlingur Richardsson var áður þjálfari Füchse Berlin. vísir/getty
Kennarar í Vestmannaeyjum hafa lýst yfir áhyggjum af álagi sem skapast þegar Erlingur Richardsson, skólastjóri grunnskóla Vestmannaeyja, sinnir hinu starfi sínu sem landsliðsþjálfari Hollands. Þetta kom fram í ályktun Kennarafélags Vestmannaeyja sem samþykkt var á aðalfundi félagsins.

Eyjar.net fjalla um málið en Erlingur var ráðinn landsliðsþjálfari Hollands í upphafi októbermánaðar. Fékk hann heimild bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum til að taka starfið að sér og er í launalausu leyfi þegar hann er fjarverandi vegna verkefna sinna með hollenska landsliðinu.

Kennarafélagið telur mikilvægt að staðgengill sinni starfi skólastjóra á meðan hann er burtu og njóti sömuleiðis aðstoðar annars starfsmanns.

Fram kemur í minnisblaði frá Jóni Péturssyni, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs í Vestmannaeyjum, að Erlingur þurfti að vera frá í fimm daga í október, níu daga í janúar og eina viku í júní þegar almennu skólastarfi er lokið.

Töldu Erlingur og aðstoðarskólastjórar ekki þörf á staðgengli vegna þessa samkvæmt sama minnisblaði og telja sig vel geta ráðið við þau verkefni sem upp koma í fjarveru Erlings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×