Innlent

Ekki að sjá að veður muni ganga niður að ráði fyrr en með morgninum

Birgir Olgeirsson skrifar
Vonskuveður er víða um land.
Vonskuveður er víða um land. Vísir/Pjetur
Ekki er að sjá að veður sé nokkuð að ganga niður að ráði fyrr en með morgni, sé mið tekið af veðurspám. Þetta kemur  fram í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. 

Á Norðurlandi er talið að vindur byrji að ganga niður með kvöldinu, þannig að Öxnadalsheiði opnast ekki fyrir en með morgni. Fjallvegir á Norðausturlandi munu líklega ekki opna fyrr en líður á morguninn. Á Austurlandi (Fjarðarheiði og Fagridalur) gæti opnanir dregist fram yfir hádegi. Á suðausturhorninu og í kringum Vík dregur ekki úr vindi fyrr en eftir hádegi og á þeim slóðum eru það vindhviðurnar sem þarf að hafa áhyggjur af.

Mosfellsheiði er nú opin en Lyngdalsheiði er enn lokuð.  Holtavörðuheiði er enn lokuð. Lokað er um Siglufjarðarveg, Ólafsfjarðarmúla, Öxnadalsheiði, Víkurskarð og Hófaskarð. Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru einnig lokuð - sem og Fagridalur og Fjarðarheiði. Í Hamarsfirði eru gríðarlegar vindhviður og ófært vegna óveðurs.Nokkur hálka er víða á Suðurlandi en sums staðar hvasst.  Lyngdalsheiði er lokuð.

Á Vesturlandi er víðast hálka eða snjóþekja en Holtavörðuheiði er enn lokuð. Reiknað er með að heiðin opnist síðar í dag.

Helstu langleiðir eru færar á Vestfjörðum en Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar og á Ströndum er að mestu ófært norðan Steingrímsfjarðar.

Hálka eða snjóþekja er á aðalleiðum á Norðurlandi vestra en sums staðar þyngri færð á útvegum. Siglufjarðarvegur er lokaður.

Hríðarveður er á Norðurlandi eystra, vegir víða þungfærir eða ófærir. Lokað er á Öxnadalsheiði, í Ólafsfjarðarmúla og á Víkurskarði. Eins er lokað á Hófaskarði og síðan er lokað yfir Fjöllin frá Mývatni og austur um.

Lokað er bæði á Fjarðarheiði Fagradal vegna veðurs. Víðast er fært á Héraði en Vatnsskarð eystra er ófært.

Víða er hvasst með austur- og suðausturströndinni og ófært í Hamarsfirði vegna óveðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×