Innlent

Lögreglan leitar að fíkniefnasala sem seldi unglingsstúlkum MDMA

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú manns sem grunaður er um að hafa selt tveimur unglingsstúlkum, sem fundust meðvitundalausar í miðborginni í fimmtudag, fíkniefnið MDMA.

Lögreglan gerði húsleit vegna málsins síðdegis í gær. Hún hefur áhyggjur af því að maðurinn hafi selt fleirum efnið sem að öllum líkindum er eitrað.

Tvær fimmtán ára stúlkur voru fluttar á Landspítalann á áttunda tímanum á fimmtudagskvöld eftir að hafa fundist meðvitundarlausar á tröppum í miðborginni af völdum MDMA fíkniefna. Báðar voru þær lagðar inn á gjörgæslu, hætt komnar. Stúlkurnar komust báðar aftur til meðvitundar og eru nú að jafna sig.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur farið með rannsókn málsins. Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá embættinu, segir að þeirri rannsókn miði nú vel.

„Við fórum í húsleit í gær og þar fundum við ætluð fíkniefni og lyf og við teljum að þetta sé það húsnæði sem stúlkurnar fóru í og fengu þessi efni keypt,“ segir Guðmundur Páll en lagt var hald á eitthvert magn fíkniefna við húsleitina en hann segir að ekki fáist upplýsingar um magnið að svo stöddu enda sé ekki búið að vigta efnin.

„Það var engin heima þegar við fórum þarna inn. Við erum með grunaðan einstakling sem við teljum að hafi selt stúlkunum þessi efni en hann er eftirlýstur hjá okkur,“ segir Guðmundur Páll.

Neysla MDMA meðal ungmenna hefur verið töluverð undanfarin ár. Guðmundur segir að lögreglan hafi áhyggjur af neyslu unglinga á MDMA. Efnið sem selt sé sem MDMA sé mismunandi og því geti fólk ekki verið öruggt um hvað það fær í hendurnar. Í þessu tilfelli hafi efnið líklegast verið eitrað. Þetta er einhver blanda sem virðist vera mjög sterk og eitruð.“

Lögreglan hefur áhyggjur af því að maðurinn hafi selt fleirum MDMA. „Þessvegna þurfum við að ná þessum manni sem fyrst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×