Innlent

Katrín svarar fyrir hvers vegna hún skrifaði ekki undir áskorun stjórnmálakvenna

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Vísir/Eyþór

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, greindi frá því í kvöld hvers vegna hún var ekki á meðal þeirra stjórnmálakvenna sem rituðu nafn sitt við áskorun um að tekið verði á kynferðisofbeldi og áreitni í stjórnmálum.

Síðastliðin þriðjudag sendu rúmlega 300 íslenskar stjórnmálakonur frá sér áskorun vegna kynferðisofbeldis og áreitni í stjórnmálum hér á landi.

Stofnaður var hópur á Facebook þar sem konur, sem tekið hafa þátt í stjórnmálum hér á landi, sögðu frá ofbeldi og áreitni af hendi kollega þeirra í pólitíkinni.

Hópurinn fékk nafnið „Í skugga valdsins“ og er það jafnframt yfirskrift áskorunarinnar.

Áskorunin vakti mikla athygli en Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri grænna, sagði á Twitter fyrr í dag að henni þætti sorglegt að verðandi forsætisráðherra, og vísaði þar til Katrínar Jakobsdóttur, væri ein örfárra stjórnmálakvenna sem ekki höfðu skrifað undir hana.

Katrín greinir frá því á Twitter fyrr í kvöld að hún hefði verið spurð hvers vegna hún skrifað ekki undir þessa áskorun. Hún segist ekki hafa vitað að það ætti að skrifa undir og bætir við að hún hefði ekki verið mikið á Facebook að undanförnu þar sem umræðan um áskorunina fór fram.

„En hefði annars að sjálfsögðu gert það,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×