Skoðun

Tökum höndum saman

Ráð Rótarinnar skrifar
Ársins 2017 verður minnst fyrir það þegar konur risu upp þúsundum saman vestan hafs og austan til að segja frá hvers kyns kynferðisofbeldi sem þær hafa verið beittar af valdamönnum í þeirra nánasta umhverfi, hvort heldur er í lista- og stjórnmálum eða allt þar á milli. Þöggun og leyndarhyggja verður ekki lengur liðin. Styrkurinn felst í samtakamættinum og fjöldanum. Rannsóknir sýna að konur sem leita sér meðferðar við fíkn eiga í langflestum tilfellum að baki alvarlega áfalla- og ofbeldissögu sem hefur haft afgerandi áhrif á heilsu þeirra og líðan. Rótin vill nýta tækifærið og benda enn og aftur á ólíðandi ofbeldi gegn konum á meðferðarstöðvum sem þarf að stöðva.

34,5% þátttakenda urðu fyrir kynferðislegri áreitni í meðferð

Rótin kom að framkvæmd rannsóknar á reynslu kvenna af meðferðarúrræðum. Spurningalistar voru sendir til félaga í Rótinni en 34,6% sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í meðferð, 12% fyrir kynferðislegu ofbeldi, tæp 14% fyrir einelti og 28% fyrir andlegu ofbeldi. Einnig höfðu 6% orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og tæp 4% fyrir fjárhagslegu ofbeldi. Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir áreitni og ofbeldi í meðferð eða orðið vitni að slíku. Alls 23% sögðust hafa orðið vitni að einelti í meðferðinni, 21% að óhóflegri valdbeitingu starfsfólks, 45% voru vitni að ófaglegum eða óviðeigandi athugasemdum starfsfólks og 35% ofbeldi gegn öðrum þátttakanda í meðferðinni, af hendi annarra þátttakenda, og 15% að hótun.

Ofbeldi órjúfanlegur hluti tilverunnar

Á það ber líka að líta að margar konur sem leita sér meðferðar skilgreina ofbeldi ekki sem ofbeldi þegar þær koma í meðferð þar sem það er órjúfanlegur hluti tilveru þeirra. Saga kvennanna var því einnig skoðuð með sérstöku tilliti til erfiðrar upplifunar í æsku og hvort að þær eigi sögu um ofbeldi í nánum samböndum. Niðurstöðurnar eru sláandi, 55% þátttakenda höfðu upplifað andlegt ofbeldi á heimili sínu í æsku, 34% líkamlegt ofbeldi, 51% kynferðislegt ofbeldi, 70% sögðu að skort hefði upp á ást og umhyggju í uppvextinum og 37% sögðust hafa verið vanrækt. Þá höfðu 20% upplifað líkamlegt ofbeldi gegn móður.

Rúm 80% þátttakenda höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á fullorðinsárum, tæp 75% fyrir kynferðislegu ofbeldi, 88% fyrir andlegu ofbeldi, tæp 56% fyrir líkamlegu ofbeldi og rúm 46% fyrir fjárhagslegu ofbeldi og sama hlutfall hafði orðið fyrir einelti.

Verður ekki liðið

Rótin krefst þess að yfirvöld heilbrigðis- og félagsmála taki þessar niðurstöður alvarlega. Þó að rannsóknin hafi verið gerð á afmörkuðum hópi þá er margt í niðurstöðunum sem snýr að ofbeldisreynslu kvenna í meðferð í samræmi við erlendar rannsóknir. Rótin var ekki síst stofnuð vegna frásagna kvenna af ofbeldi og áreitni í meðferðar- og batakerfinu og frá upphafi höfum við haldið þeim á lofti, enda eru þær alþekktar meðal þeirra sem farið hafa í meðferð. Svörin hafa hins vegar iðulega verið þau að við séum fordómafullar.

Nú er þolinmæði okkar á þrotum eins og annarra kvenna. Hið opinbera verður að sjá til þess að meðferðarstaðir séu öruggir staðir þar sem áreitni og ofbeldi kemur í veg fyrir að bataferli frá fíkn geti hafist. Til þess að svo megi verða þarf að ráðast í úttekt á kerfinu þar sem rætt er við notendur. Rótin telur að nú sé nóg komið af aðgerðarleysi vegna síendurtekinna frásagna úr meðferðarkerfinu og hefur sent Þorsteini Víglundssyni, félags- og jafnfréttismálaráðherra, erindi þar að lútandi.

Áslaug Kristjana Árnadóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Margrét Gunnarsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.



Höfundar eru í ráði Rótarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×