Innlent

Búast við tíu milljónum farþega á Keflavíkurflugvelli á næsta ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Umferð um Keflavíkurflugvöll er að tvöfaldast frá 2015.
Umferð um Keflavíkurflugvöll er að tvöfaldast frá 2015. vísir/pjetur

Búist er við því að á næsta ári fari rúmlega 10 milljónir flugfarþega um Keflavíkurflugvöll. Það er 18 prósentum fleiri farþegar en á þessu ári.

Mest er fjölgunin á meðal skipti­farþega, sem millilenda eingöngu á flugvellinum á leið sinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku eða 33 prósent. Fjölgun komu- og brott­farar­farþega er hlutfallslega minni en undanfarin ár, 10 prósent, en þó er fjölgunin töluvert yfir meðaltalsfarþegafjölgun á flugvöllum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Isavia veitir ekki upplýsingar um það hvernig flugið mun skiptast hlutfallslega milli íslenskra flugfélaga og erlendra.

„Hins vegar er ljóst að langstærstur hlutinn er Icelandair og WOW, sérstaklega í skiptifarþegum, af því að þau eru bæði að nota okkur sem skiptifarþegaflugvöll,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar. Erlendu flugfélögin séu aftur á móti með hærra hlutfall farþega sem koma til landsins og fara sömu leið til baka en farþega í tengiflugi.

Fjölgun farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll hefur verið hröð undanfarin ár, en árið 2010, þegar Isavia var stofnað, fóru rúmar tvær milljónir farþega um völlinn.

Ef spáin gengur eftir mun farþegafjöldi hafa fjórfaldast á átta árum og ríflega tvöfaldast frá árinu 2015.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.