Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - KR 94-84 | Grindavík lagði Íslandsmeistarana

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson hjá Grindavík.
Ólafur Ólafsson hjá Grindavík. Vísir/Andri Marinó
Grindavík vann mikilvægan sigur á KR í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Lokatölur urðu 94-84 en heimamenn leiddu allan tímann og sigurinn í raun nokkuð öruggur.

KR-liðið mætti til leiks hálf vængbrotið. Jón Arnór Stefánsson hefur ekkert leikið í vetur vegna meiðsla og þá vantaði einnig þá Sigurð Þorvaldsson og Pavel Ermolinskij.

Grindvíkingar byrjuðu betur og tóku forystuna strax í upphafi. Þeir leiddu með tíu stigum eftir fyrsta leikhlutann og héldu KR í aðeins 14 stigum.

Heimamenn héldu forystunni út hálfleikinn en KR náði ágætis áhlaupum inni á milli sem gerði það að verkum að þeir misstu Grindvíkinga aldrei mjög langt fram úr sér. Forystan varð mest 14 stig en KR endaði fyrri hálfleikinn betur og staðan að honum loknum var 42-35.

Seinni hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt. Rashad Wack tók leikinn yfir á kafla í þriðja leikhluta og raðaði niður þriggja stiga körfum. Vörn KR var ekki sjálfri sér lík og þeir voru þar að auki með slaka nýtingu í sókninni.

Gestirnir náðu aldrei að ógna heimamönnum að ráði þó svo að þeir hafi mest náð að minnka muninn niður í fimm stig. Brynjar Þór Björnsson tók rispu undir lokin og setti niður stóra þrista en það var ekki nóg og Grindavík fagnaði tíu stiga sigri að lokum, 94-84.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir voru einfaldlega betra liðið í leiknum í kvöld og áttu sigurinn skilið. Auðvitað voru stór skörð höggvin í hóp KR en það eru svo sem engir aukvisar sem eru til staðar þó einhverja vanti. Hittni KR var ekki til útflutnings og það er erfitt að vinna leik þegar þú færð á þig 94 stig.

Grindvíkingar voru duglegri að hitta og Rashad Wack var góður í kvöld. Þriggja stiga skot heimamanna voru einnig að detta niður í kvöld, ólíkt því sem var uppi á teningunum í leiknum gegn Tindastóli á dögunum, en alls settu heimamenn niður 14 slík í kvöld.

Þessir stóðu upp úr:

Rashad Wack var öflugur hjá heimamönnum, skoraði 28 stig og skilaði 31 framlagsstigi. Ólafur Ólafsson var einnig góður, með 20 stig og þá tók Sigurður Þorsteinsson 14 fráköst og skoraði 14 stig þar að auki.

Jóhann Árni Ólafsson var öflugur varnarlega og setti góðar körfur undir lokin.

Hjá KR voru Jalen Jenkins og Kristófer Acox stigahæstir en hittu illa. Jenkins skoraði 20 stig og tók 17 fráköst en hittnin úr tveggja stiga skotum var aðeins 34%, 9/26. Kristófer var stigahæstur með 23 stig og tók 10 fráköst.

Áhugaverð tölfræði:

Rashad Wack hitti betur fyrir utan þriggja stiga línuna en innan hennar, var 6/9 í þristum en 3/11 úr tveggja stiga skotum. 18 af hans 28 stigum komu úr þriggja stiga skotum.

Grindavík var með fleiri tapaða bolta en KR, 19 gegn 13 en Grindavík vann frákastabaráttuna 47-45. KR tók þó heil 20 sóknarfráköst og skilaði 18 stigum eftir þau, en Grindavík tók 10 fráköst í sókninni.

Hvað gerist næst?

Grindavík heldur næst til Njarðvíkur og mætir þar nágrönnum sínum. Þeir vilja sjálfsagt hefna fyrir bikartapið og eru vafalaust fegnir að fá tækifæri til þess svona fljótt.

KR tekur á móti Haukum í afar áhugaverðum leik í næstu umferð. Finnur Freyr þjálfari KR bjóst við að Pavel Ermolinskij og Sigurður Þorvaldsson yrðu klárir fyrir þann leik og það mun auðvitað styrkja lið þeirra verulega.

Jóhann: Umræðan háværari því Lewis er að leika sér í Ameríku
Jóhann Þór ræðir við sína menn.vísir/andri marinó
„Ég er mjög ánægður með sigurinn. Frammistaðan á köflum var ekkert æðisleg en það eru ljósir punktar og sigurinn góður,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir tíu stiga sigur þeirra á KR í Grindavík í kvöld.

KR mætti með hálf vængbrotið lið til leiks í kvöld en þeir voru án þriggja lykilmanna í leiknum.

„Það vantar þrjá menn hjá þeim, þann allra besta og svo Sigga (Sigurð Þorvaldsson) og Pavel (Ermolinskij). Það hefur auðvitað áhrif á þeirra leik og ég myndi segja á okkur líka. Við erum búnir að undirbúa okkur alla vikuna miðað við að þeir séu með og svo vitum við þetta rétt fyrir leik.“

„Við kannski urðum eitthvað værukærir við það en við unnum og vorum hörkugóðir á köflum. Það er jákvætt,“ bætti Jóhann Þór við.

Rashad Wack átti stórgóðan leik fyrir Grindvíkinga í kvöld, endaði með 27 stig og raðaði niður þriggja stiga skotum. Einhver umræða hefur verið í gangi undanfarið að Grindvíkingar ættu að skipta honum út fyrir Lewis Clinch sem lék með þeim gulklæddu á síðustu leiktíð. Jóhann var sammála því að Wack væri að komast betur og betur inn í leik Grindvíkinga.

„Umræðan er háværari af því að Lewis Clinch er að leika sér í Ameríku. Við erum að púsla saman liði og það tekur tíma. Við erum með fleiri möguleika sóknarlega en í fyrra og hann á held ég bara eftir að verða betri.“

Grindvíkingar höfðu tapað þremur af síðustu fjórum leikjum í deild og bikar og sigurinn í kvöld var því enn mikilvægari í því ljósi.

„Sigurinn var mjög mikilvægur. Það var erfitt að tapa á mánudag og það tóku okkur tíma að jafna okkur eftir það. Það var mjög mikilvægt að koma til baka og ná sigri, síðan er auðvitað alltaf gaman að vinna KR,“ sagði Jóhann að lokum.

Finnur Freyr: Auðveldara að rata út þegar maður veit hvar maður stendur
Finnur á línunni fyrr í vetur.Vísir/anton
„Grindavík var töluvert betri aðilinn í leiknum. Það komu kaflar í leiknum þar sem við náðum smá neista í vörninni. Mér fannst við búa til ágætis skot allan leikinn en mér fannst neistinn og keppnisandinn í heildina ekki nógu góður í kvöld,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR að leik loknum í kvöld.

„Það komu nokkur augnablik í leiknum þar sem eru einfaldlega baráttuglaðari og ef það gerist gegn Grindavík þá gerast ekkert góðir hlutir.“

KR náði að minnka muninn í 5 stig í fjórða leikhluta en komust ekki nær en það.

„Við tókum slæmar ákvarðanir og nýtum ekki góð færi. Við missum þá í vörninni á sama tíma. Þegar við virkilega þurftum stoppin og að stíga upp þá gerðum við það ekki.“

„Við höfum verið að bíða eftir stöðutékki á okkar lið og það kom í dag. Þetta var pínulítið eins og maður hafði óttast, að staðan á liðinu væri ekki betri en þetta. Um leið og maður veit hvar maður stendur þá er auðveldara að rata út og við þurfum að halda áfram að leggja hart að okkur.“

Sigurður Þorvaldsson og Pavel Ermolinskij léku ekki með KR í kvöld vegna meiðsla. Á Finnur von á þeim klárum í næsta leik?

„Ég býst allavega við að Siggi verði mættur í næsta leik, við þurfum að sjá aðeins með Pavel. Það vantar menn en mér fannst Orri (Hilmarsson) nýta sínar mínútur vel. Aðrir þurfa að sýna meiri stöðuleika inni á velllinum, bæði í vörn og sókn,“ sagði Finnur að lokum.

Wack: Vildum leika betur en gegn Njarðvík
Ólafur Ólafsson átti fínan leik fyrir Grindavík í kvöld og skoraði 20 stig. Vísir/Eyþór
Rashad Wack var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld. Hann skoraði 28 stig og þar af sex þriggja stiga körfur.

„Mér fannst við spila vel. Leikurinn í bikarnum gegn Njarðvík voru mikil vonbrigði og þar voru margir sem léku ekki vel. Við vildum koma út í kvöld og leika betur. Mér fannst við gera það gegn góðu liði og sýndum að við gætum unnið þá bestu ef við spilum af sjálfstrausti,“ sagði Wack við Vísi eftir leikinn í kvöld.

„Ég þekki kannski ekki KR það vel en strákarnir höfðu aðeins sagt mér frá þeim og að þetta væri stór klúbbur. Auðvitað var ég spenntur og sérstaklega eftir tapið í síðasta leik. Ég vildi mæta af fullum krafti og þetta var skemmtilegur leikur í kvöld.“

Wack var frábær í þriðja leikhlutanum og skoraði þá fjórar þriggja stiga körfur og á tímabili fór allt ofan í hjá honum.

„Í fyrri hálfleik fékk ég kannski ekki mörg færi. Ég vildi mæta með mikla orku í seinni hálfleikinn því stundum höfum við ekki mætt af nægjanlegum krafti eftir hlé. Strákarnir hjálpuðu mér að komast í góðar stöður og ég náði nokkrum skotum niður. Að sjá þau detta var góð tilfinning,“ sagði Wack að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira