Innlent

Logi: Auðvelt að segja nei við stjórnarmyndun fjórflokksins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og arkítekt.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og arkítekt. Vísir/Eyþór
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að það hafi verið auðvelt að hafna aðkomu að þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem nú eru að hefjast.

Vinstri græn vildu fá Samfylkinguna inn í viðræðurnar til að styrkja þann meirihluta sem slík stjórn myndi hafa. Svo fór þó ekki og eru Vinstri græn á leið í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

„Það var auðvelt að segja nei við hugmyndinni um stjórnarmyndun gamla fjórflokksins. Þar fengu skynsemin og hjartað bæði að láta sína skoðun í ljós og voru sammála um að slík stjórn væri ekki svar við áskorun stjórnmálanna, næstu árin,“ skrifar Logi á Facebook.

Hann segir að sú áskorun snúist um að auka félagslegan jöfnuð auk þess sem að bregðast þurfi við þeim atburðum sem leiddu til falls síðustu tveggja ríkisstjórna og vísar þar til þeirra upplýsinga sem komu fram í Panama-skjölunum sem og málum sem tengjast veitingu uppreist æru.

Það sé forsenda þess að komið verði á pólitískum stöðugleika og sú ríkisstjórn sem nú sé í burðarliðnum sé ekki vænleg til árangurs.

„Ríkisstjórn frá miðju til vinstri er að mínu mati líklegust til að takast það,“ skrifar Logi en hann hefur á undanförnum dögum unnið að því að faá Viðreisn, Pírata og Flokk fólksins til liðs við sig svo bjóða mætti þeim flokkum sem nú er á leið í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn upp á annan valkost.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×