Innlent

Opnun Vaðlaheiðarganga gæti seinkað enn frekar

Haraldur Guðmundsson skrifar
Verktakar Ósafls glöddust þegar síðasta haftið var sprengt í vor.
Verktakar Ósafls glöddust þegar síðasta haftið var sprengt í vor. vísir/jói k.
Útlit er fyrir frekari seinkun á opnun Vaðlaheiðarganga en aðstæður þar tefja enn verkið. Núgildandi verkáætlun gerir ráð fyrir að klippt verði á borða í lok ágúst 2018 en opnunin gæti nú tafist um nokkra mánuði og á endanum orðið heilum tveimur árum á eftir upphaflegri áætlun.

Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga.
„Það hefur komið fram að það eru seinkanir á verktímanum. Verktakinn hefur nýlega staðfest að þær verði unnar upp en það eru nokkrar breytur í þessu og ljóst að það þarf að spýta í lófana ef halda á áætlun. Það er ekki búið að útiloka að þetta gangi upp en eins og staðan er núna lítur út fyrir seinkun þrátt fyrir fyrirheit verktakans,“ segir Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður verkkaupans, Vaðlaheiðarganga hf.

Síðasta haft ganganna var sprengt í lok apríl en framkvæmdir hófust í júlí 2013. Síðustu mánuði hafa verktakar Ósafls unnið við að koma heitu og köldu vatni sem streymir úr sprungum í lagnir og út úr göngunum. Þegar stóra heitavatnsæðin opnaðist í febrúar 2014 var gert ráð fyrir hálfs árs seinkun og að göngin yrðu opnuð síðasta vor. Það væri mikilvægt svo hægt yrði að ná tekjutoppi síðasta sumar, á þeim árstíma þegar flestir bílar færu í gegnum göngin. Nú er útlit fyrir að síðustu sumardagar 2018 náist ekki heldur en framkvæmdin er fjármögnuð með 13,4 milljarða króna láni frá ríkinu.  

„Þetta verður rekstur til langs tíma og hversu lengi sem gjaldtakan verður þá er þetta ekki úrslitaatriði, einhver nokkurra mánaða seinkun til viðbótar. Þó það hefði verið betra því vigtin á umferðinni liggur þannig. Rekstur svona vegganga er þannig að það er mikil framlegð í tekjunum þegar þær koma og það er í sjálfu sér betra að ná sumrinu en það kemur annað sumar og það er ekki úrslitaatriði,“ segir Friðrik. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×