Enski boltinn

Giggs: Myndi ekki vilja Jesus fyrir Rashford

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gabriel Jesus hefur skorað sjö mörk á tímabilinu en Marcus Rashford aðeins þrjú
Gabriel Jesus hefur skorað sjö mörk á tímabilinu en Marcus Rashford aðeins þrjú vísir/getty
Ryan Giggs myndi ekki vilja skipta á Marcus Rashford og Gabriel Jesus. Þetta sagði hann í reglulegum dálki sínum, „Dagbók '92 árgangsins,“ hjá Sky Sports.

Marcus Rashford var vonarstjarna Manchester United þegar hann kom fyrst fram á sjónarsviðið, en hann skoraði tvö mörk í sínum fyrsta byrjunarliðsleik fyrir liðið í febrúar 2016. Gabriel Jesus kom til Manchester City í janúar síðastliðnum og hann hefur skorað 14 mörk í 20 leikjum fyrir liðið.

Þessir tveir munu mætast þegar þjóðir þeirra eigast við í vináttulandsleik á Wembley í kvöld.

„Þeir eru frekar ólíkir. Jesus skorar meira, en Marcus vill mæta varnarmönnum og reyna að taka þá á, sem gerir hann frábærann áhorfs,“ sagði Giggs.

„Ég hef unnið með Marcus og séð hann af stuttu færi og hversu mikla hæfileika hann hefur. Það er hins vegar hversu hart hann leggur að sér og hvað hann vinnur mikið sem gerir hann mikilvægan fyrir Manchester United.“

Giggs var í þjálfarateymi David Moyes og var Louis van Gaal til aðstoðar hjá Manchester United áður en hann hætti störfum fyrir félagið vorið 2016 þegar Jose Mourinho tók við taumunum.

„Ég myndi ekki skipta honum út fyrir neinn annan ungan leikmann,“ sagði Ryan Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×