Erlent

Segja skriðdreka hersins á leið til Harare

Atli Ísleifsson skrifar
Á samfélagsmiðlum hafa netverjar velt vöngum hvort að valdarán hersins sé í uppsiglingu.
Á samfélagsmiðlum hafa netverjar velt vöngum hvort að valdarán hersins sé í uppsiglingu. twitter
Sjónarvottar hafa séð fjóra skriðdreka sem virðast vera á leið til Harare, höfuðborg Simbabve.

Reuters greinir frá þessu en í gær lýsti yfirmaður hersins því yfir að herinn væri reiðubúinn að bregðast við til að stöðva hreinsanir stjórnar Robert Mugabe forseta sem hefur unnið að því að losa sig við stuðningsmenn varaforsetans fyrrverandi Emmerson Mnangagwa.

Í frétt Reuters segir að sést hafi til tveggja skriðdreka á veginum milli Harare og Chinhoyi, um tuttugu kílómetrum frá höfuðborginni.

Hinn 75 ára Mnangagwa tók virkan þátt í frelsisbaráttu Simbabve á áttunda áratugnum og var af mörgum talinn líklegur arftaki hins 93 ára Mugabe í embætti forseta áður en Mnangagwa var rekinn í byrjun mánaðar.

Er talið að með brottrekstri Mnangagwa vilji Mugabe greiða leið eiginkonu sinnar, hinnar 52 ára Grace Mugabe, til að taka við forsetaembættinu af honum.

Constantino Chiwenga, yfirmaður hersins, sagði í gær að herinn myndi ekki hika við að bregðast við ef stríðinu gegn byltingarmönnum áttunda áratugarins yrði ekki hætt.

Á samfélagsmiðlum hafa netverjar velt vöngum hvort að valdarán hersins kunni að vera í uppsiglingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×