Körfubolti

Íslenska ríkið gæti farið fyrir dómstól vegna 4+1 reglunnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Langflestir erlendir leikmenn í Dominos deild karla koma frá Bandaríkjunum.
Langflestir erlendir leikmenn í Dominos deild karla koma frá Bandaríkjunum. Vísir/Anton
ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur gefið íslenska ríkinu tveggja mánaða frest til að bregðast við áliti hennar um að 4+1 reglan í íslenskum körfubolta sé brot gegn EES-samningum, sem Ísland er aðili að.

„Körfuboltamenn frá öðrum EES ríkjum eiga að hafa sömu réttindi til atvinnu á Íslandi og íslenskir leikmenn,“ segir í frétt á heimasíðu ESA sem fjallar um málið í dag. 4+1 reglan segir að aðeins einn erlendur leikmaður megi vera inni á vellinum hverju sinni í körfuboltaleikjum hér á landi.

ESA hefur sent íslenska ríkinu rökstutt álit þar sem fram kemur að reglan sé brot á skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

Fyrr í sumar sendi ESA Íslandi formlegt áminningarbréf og gaf ríkisvaldinu þriggja mánaða frest til að svara því. Það var ekki gert. Íslenska ríkið hefur nú tveggja mánaða frest til að svara áliti ESA en verði ekki brugðist við getur stofnunin vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

Verði reglum KKÍ breytt í samræmi við álit ESA og 4+1 reglan lögð af, verður hægt að tefla fram eins mörgum evrópskum leikmönnum í leikjum og lið hér á landi kjósa.

Um leið þyrfti þá að taka upp nýjar reglur um fjölda Bandaríkjamanna sem íslenskum liðum er heimilt að vera með innan sinna raða.


Tengdar fréttir

Brjóta gegn reglum EES með 4+1 reglunni

KKÍ, Körfuknattleikssamband Íslands, brýtur reglur evrópska efnahagssvæðisins (EES) með hinni svokölluðu 4+1 reglu sem leyfir aðeins einum erlendum leikmanni í hvoru liði inni á vellinum í einu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×