Innlent

Hjartavernd vill finna fólk í lífshættu

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir skrifar
Vilmundur Guðnason er forstöðulæknir Hjartaverndar. Fréttablaðið/Anton
Vilmundur Guðnason er forstöðulæknir Hjartaverndar. Fréttablaðið/Anton
Finnum fólk í lífshættu – útrýmum ótímabærum hjarta- og æðaáföllum er yfirskrift söfnunarátaks Hjartaverndar. Því verður fylgt úr hlaði á föstudaginn í opinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2.

Tilefni söfnunarinnar er að Hjartavernd hefur þróað nýjan áhættureikni sem greinir æðkölkunarsjúkdóm á frumstigi á mun nákvæmari hátt en hefur verið mögulegt hingað til. Söfnunarfénu verður varið til að mæta kostnaði við innleiðingu á áhættureikninum á heilsugæslustöðvum landsins. Hjartavernd hefur unnið í nær 15 ár að rannsóknum sem hafa leitt til þessa nýja reiknis. Fleiri þúsund manns leita til Hjartaverndar á ári hverju, bæði karlar og konur og er meðalaldur þeirra um fimmtíu ár. Þeir sem komu voru að meðaltali með hærri áhættu en jafnaldrar borið saman við gögn Hjartaverndar. Möguleg skýring gæti verið að þeir sem fara í áhættumat hafa oft ættarsögu um hjarta- og æðasjúkdóma. Ættarsaga er þekktur áhættuþáttur en aðra áhættuþætti þarf líka að taka með í myndina og hafa í huga að líkur á að fá hjarta- og æðasjúkdóma eru einstaklingsbundnar.

Eini sinnar tegundar í heiminum

„Okkar nýi áhættureiknir er sá eini sinnar tegundar sem við vitum um í heiminum í dag. Hann var þróaður í tengslum við nokkrar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið prófaður þar og virkar vel. Rannsóknin okkar byggir á 7.000 manna þýði. Með áhættureikninum er hægt að finna stóran hluta einstaklinga sem hafa æðakölkun í hálsslagæðum en engin önnur einkenni æðakölkunar. Nú er tími til að fara að vinna að innleiðingu hans um land allt, og því förum við af stað í söfnunarátakið til að ná því. Markmiðið er að allir heilsugæslulæknar geti með einföldum hætti greint þá sem eru í áhættu og gert viðeigandi ráðstafanir. Þeir sem eru ekki í augljósum áhættuhópi fá oft klapp á bakið um að allt sé í lagi þó þeir séu með dulda æðakölkun sem getur á endanum dregið menn til dauða,“ segir Vilmundur Guðnason, prófessor og forstöðulæknir Hjartaverndar.

Grípum fyrr inn í og björgum mannslífum

Á hverju ári deyja nær 200 einstaklingar ótímabærum dauða vegna hjartaáfalla. Meira en 1.000 einstaklingar lifa af áfall eða gangast undir lífsbjargandi æðaaðgerðir. „Unnt hefði verið að koma í veg fyrir umtalsverðan hluta þessara afleiðinga hefði æðakölkunin greinst fyrr. Þetta þýðir að í dag eru um 25.000 manns eldri en 50 ára lifandi með fyrirbyggjanlegar afleiðingar æðakölkunar með tilheyrandi lífsgæðaskerðingu og vægast sagt miklum kostnaði fyrir samfélagið. Helmingur þessara einstaklinga er yngri en sjötugur.“

„Hér á landi eru gerðar 700-800 kransæðaútvíkkanir árlega og allt að 150 hjáveituaðgerðir sem eru vissulega lífsnauðsynlegar. Stærsti hluti þessara áfalla er fyrirbyggjanlegur með greiningu og inngripi. Því fyrr sem við berum kennsl á einstaklinga sem eru í hættu þá er auðséð að minnka má afleiðingarnar. Segjum að fækka mætti hjáveituaðgerðum í 50 á ári sem yrði gríðarlegur sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið. Við viljum vissulega að 50 á ári séu ekki hámarksfjöldi aðgerða vegna skorts á fjármunum heldur að 50 á ári sé vegna þess að það eru ekki fleiri einstaklingar sem þurfa þess. Hinn hefðbundni áhættureiknir finnur auðveldlega þá sem eru í mikilli hættu á að fá kransæðaáfall á næstu 10 árum. Staðreyndin er hins vegar sú að langflestir einstaklingar sem hafa æðakölkun og fá afleiðingar hennar eins og hjartaáfall, heilaáfall eða verða að fara í lífsbjargandi aðgerðir eins og kransæðahjáveituaðgerð eða blásningu hafa lága eða miðlungsáhættu á að fá áfall og oftast enga áþreifanlega áhættuþætti sem unnt er að ráðast á. Það getur því verið dauðans alvara að fá klapp á bakið og fullvissu um að allt sé í lagi. Markmið okkar er að bjarga mannslífum og fara í aðgerðir sem draga úr líkum á hjartaáföllum í framtíðinni,“ segir Vilmundur Guðnason og hvetur landsmenn til að taka þátt í söfnuninni því að málefnið er öllum skylt.

Um Hjartavernd

Hjartavernd, landssamtök voru stofnuð árið 1964. Rannsóknarstöð Hjartaverndar sem er 50 ára í ár hóf starfsemi sína þremur árum síðar eða árið 1967 með mjög víðtækri faraldsfræðilegri rannsókn, Hóprannsókn Hjartaverndar, þar sem áhersla var lögð á að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma meðal Íslendinga. Rannsóknin hefur staðið yfir í 50 ár og hefur náð til rúmlega þrjátíu þúsund Íslendinga. Margar nýjar rannsóknir hafa tengst henni eins og áhættuþáttakönnun Hjartaverndar sem náði til 7.000 karla og kvenna og nýi áhættureiknirinn byggir á. Þessar rannsóknir hafa orðið grundvöllur þekkingar hérlendis á helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma. Hjartavernd hefur frá upphafi lagt áherslu á að koma niðurstöðum úr rannsóknum sínum til almennings og heilbrigðisstarfsfólks. Frekari upplýsingar um Hjartavernd er að finna á vefsíðunni www.hjarta.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×